Svar Seðlabanka Íslands til Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, vegna beiðni hans um að stjórnvaldsekt bankans yrði afturkölluð, var ekki í samræmi við lög og vinnubrögðin voru gagnrýniverð.
Þetta kemur fram í áliti Umboðsmanns Alþingis, Tryggva Gunnarssonar, sem birt var á vef embættisins í dag.
„Það er álit mitt að með svari Seðlabanka Íslands frá 9. maí 2018 við erindi A um afturköllun ákvörðunar um stjórnvaldssekt sem bankinn lagði á hann [...] 2016 hafi ekki verið leyst með fullnægjandi hætti úr erindi hans. Ekki verður séð að bankinn hafi við meðferð málsins tekið afstöðu til þeirra röksemda sem A vísaði til beiðni sinni til stuðnings, m.a. um afstöðu ríkissaksóknara til gildis laga og reglna um gjaldeyrismál sem fullnægjandi refsiheimilda. Með vísan til þess er það álit mitt að svar seðlabankans hafi ekki verið í samræmi við lög.
Ég beini því til Seðlabanka Íslands að taka erindi A til nýrrar meðferðar, komi fram ósk þess efnis frá honum, og haga þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð er grein fyrir í álitinu. Ég beini jafnframt þeim tilmælum til Seðlabanka Íslands að taka framvegis og við úrlausn sambærilegra mála mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu. Í ljósi eftirlitshlutverks bankaráðs Seðlabanka Íslands hef ég jafnframt ákveðið að senda því afrit af þessu áliti til upplýsinga,“ segir í lokaorðum bréf Umboðsmanns Alþingis.
Í bréfi sínu gagnrýnir Umboðsmaður Alþingis, að forsvarsmenn seðlabankans, og aðrir þeir sem voru með á fundi sem hann átti með þeim í október 2015, hafi ekki upplýst hann um afstöðu ríkissaksóknara til álitaefnis sem fjallað var um. Segir hann að það sé gagnrýnivert í ljósi þess eftirlitshlutverks sem embættið fer með samkvæmt lögum.
Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, segir í viðtali við RÚV að bankaráðið hafi tekið álitið til umfjöllunar á fundi sínum í morgun.
Hann segir að það komi fram hörð gagnrýni í áliti umboðsmanns á stjórnsýslu bankans í málinu. Bankaráð hafi á fundi sínum ályktað að bankinn ætti að bregðast við þessu og taka málið upp í samræmi við ábendingar umboðsmanns. Kanna ætti hvort taka þyrfti upp önnur sambærileg mál.