„Það vildi þannig til að fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, sem er frá Vestmannaeyjum, var staddur á flugvelli þar í bæ í gærmorgun. Þá var nýlent í bænum sendinefnd frá dómsmálaráðuneytinu. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hún var þangað komin til að tilkynna heimamönnum að frá og með föstudeginum næsta, ekki á morgun heldur hinn, yrði enginn sýslumaður í Vestmannaeyjum! Hvorki þingmenn kjördæmisins né bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum, höfðu hugmynd um þetta.“
Þetta sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu á Alþingi í dag, þar sem hann gagnrýndi Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra harðlega, fyrir „óboðlega stjórnsýslu“.
Samkvæmt tilkynningu sem birtist á vef dómsmálaráðuneytisins í gær, segir að breytingar verði á yfirstjórn embættis sýslumanns í Vestmannaeyjum frá 1. febrúar næstkomandi þegar Lára Huld Guðjónsdóttir, sýslumaður, hverfi tímabundið til annarra starfa hjá sýslumannaráði. „Sýslumaðurinn á Suðurlandi, Kristín Þórðardóttir, verður tímabundið settur sýslumaður í Vestmannaeyjum frá 1. febrúar til 31. desember. Í samstarfi við dómsmálaráðuneytið mun Lára Huld m.a. hafa með höndum að greina rekstur sýslumannsembættanna með tilliti til aukinnar skilvirkni og hagræðingar ásamt því að greina tækifæri fyrir rafræna þjónustu,“ segir í tilkynningunni.
Páll sagði í ræðu sinni, að í „illskiljanlegri“ tilkynningu hefði komið fram, að sýslumaðurinn myndi hverfa til starfa hjá sýslumannaráði. „Seinna í sömu tilkynningu er sagt að þessar breytingar séu í samræmi áform dómsmálaráðherra um stefnumörkun í stjórnsýslu ríkisins. Og við frumvarp sem seinna yrði lagt fram á yfirstandandi þingi sem fæli meðal annars í sér að ráðherra yrði á hverjum tíma heimilt að skipa sýslumann yfir fleiri embætti en eitt til allt að fimm ára. Samkvæmt orðanna hljóðan væri þá ráðherra væntanlega heimilt að skipa bara einn sýslumann yfir Íslandi. Til fimm ára og sá yrði örugglega í Reykjavík. Þett er algjörlega óboðleg stjórnsýsla.“
Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu, segir að þessar breytingar séu í samræmi við áform dómsmálaráðherra, sem „hún hefur kynnt bæði ríkisstjórn og sýslumönnum, um stefnumörkun í stjórnsýslu ríkisins í héraði sem sýslumönnum hefur verið falin.“
Þá segir enn fremur að dómsmálaráðherra muni einnig leggja til við Alþingi á yfirstandandi þingi að gerðar verði breytingar á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði þannig að „ráðherra verði á hverjum tíma heimilt að skipa sama sýslumann yfir fleiri embætti til allt að fimm ára í senn.