Í rannsókn sem Gallup gerði fyrir starfshóp sem skrifaði Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi kom í ljós að 26,4 prósent landsmanna sögðu að það væri hægt að auka traust almennings til bankakerfisins með því að lækka vexti eða bæta kjör. Þessi niðurstaða varð til þess að starfshópurinn eyddi töluverðu púðri og orku í að skoða skilvirkni í íslenska fjármálakerfinu með það fyrir augum að kanna hvað mætti gera til að bæta kjör til almennings.
Þetta sagði Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð sem sat í starfshópnum sem skrifaði Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut á fimmtudag. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Hún segir að niðurstaða rannsóknarinnar sé mjög áhugaverð og jákvæð að því leyti að þetta viðhorf sýni að þarna sé eitthvað sem er hægt að vinna mjög markvisst að því að bæta. „Það er erfiðara ef vantraustið skapast bara af einhverjum sögulegum atburðum sem við getum ekki breytt.“
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér að neðan.