Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) telur stjórnvöld vera í kjörstöðu til að búa til óhagnaðardrifinn samfélagsbanka sem myndi þjóna almenningi og bjóða betri kjör á fjármálaþjónustu.
Þetta kemur fram á vef ASÍ.
Þar segir: „Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að stofna óhagnaðardrifinn samfélagsbanka enda er almenningur langþreyttur á skorti á samkeppni á fjármálamarkaði, miklum kostnaði og háu vaxtastigi hér á landi. Með eignarhlut sínum í ríkisbönkum eru stjórnvöld í kjörstöðu til að stofna óhagnaðardrifinn samfélagsbanka, þar sem hagsmunir neytenda verði hafðir að leiðarljósi og skilið sé á milli áhættusækins bankareksturs og almennrar inn- og útlánastarfsemi. Miðstjórn ASÍ telur að stofnun slíks samfélagsbanka geti verið mikilvæg leið til að auka heilbrigði fjármálamarkaðar og færa vaxtastig og kostnað nær því sem þekkist í nágrannalöndum.“
Íslenska ríkið er umfangsmikið á fjármálamarkaði, og er eigandi Íslandsbanka (100 prósent) og Landsbankans (98,3 prósent). Þá á ríkið einnig Íbúðalánasjóð, og er markaðshlutdeild ríkisins á milli 70 og 80 prósent, þegar allt er saman tekið.
Eigið fé Íslandsbankans og Landsbankans er samtals yfir 400 milljarðar króna.
Samkvæmt stefnu stjórnvalda er að því stefnt að selja Íslandsbanka en halda eftir kjölfestuhlut í Landsbankanum, 30 til 40 prósent. Engar endanlegar ákvarðanir hafa þó verið teknar um þetta, en Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í bönkunum.