Niðurstöður launagreiningar varðandi kynbundinn launamun hjá forsætisráðuneytinu voru 0,73 prósent þegar búið var að taka tillit til frávika sem leiða af ákvæðum laga, m.a. um launaákvarðanir embættismanna.
Kynbundinn launamunur reyndist hins vegar vera 4,3 prósent þegar greining var gerð á öllu úrtakinu. Í báðum tilfellum var um að ræða hærri laun hjá konum en körlum.
Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar.
Samkvæmt svar forsætisráðherra höfðu eftirfarandi ráðuneyti öðlast jafnlaunavottun, 1. febrúar síðastliðinn: forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti. „Þau ráðuneyti sem hafa lokið úttekt og bíða afhendingar vottunarskírteinis voru samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Utanríkisráðuneyti bíður eftir úttektardagsetningu frá vottunaraðila,“ segir í svarinu.