Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra velti því upp hvort arðgreiðslur Landsvirkjunar væru skynsamlegri leið til að fjármagna vegakerfið í stað vegtolla næstu árin. Þetta kom fram í viðtali Sigurðar Inga í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Í viðtalinu sagði Sigurður markmið hugsanlegra veggjalda að koma í stað bensíngjalds, olíugjalds og díselgjalds á bílum, þar sem hærra hlutfall bíla muni keyra á öðrum orkugjöfum á næstu árum. Samkvæmt honum hefur engin ákvörðun verið tekin um veggjöld, en Vísir benti á það í frétt sinni að Jón Gunnarsson, formaður umhverfis-og samgöngunefndar, hafi lýst afgreiðslu samgönguáætlunar frá Alþingi sem tímamótaskrefi í upptöku vegtolla.
Aðspurður um aðrar leiðir í fjármögnun vegakerfisins sagði Sigurður að þær hafi verið skoðaðar og nefndi þar sem dæmi væntar arðgreiðslur úr Landsvirkjun: „Við vitum að arðgreiðslur eru að koma frá Landsvirkjun, ekki síst á næstu árum. Við höfum verið að ræða það að setja það í Þjóðarsjóð. Er kannski skynsamlegra að nota það í einhver ár við uppbyggingu vegakerfisins? Er það meiri ávinningur fólginn í því og gera svo eitthvað í þessari gjaldtöku í 4-5 ár?“ Sagði Sigurður.