Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, segir að meiri vöxtur á fjármagnstekjum og tekjum sem stafa af eignum á síðustu árum auki á þann ójöfnuð sem ríki hérlendis.
„Þessi aukni eignaójöfnuður, sem er á miklu hærra stigi en tekjuójöfnuðurinn, hann líka býr til fjármagnstekjurnar. Þær höfðu vaxið gríðarlega í aðdraganda hrunsins, en detta niður eftir hrun. Svo þegar uppsveiflan byrjar aftur 2012 þá fara fjármagnstekjurnar að aukast og þær eru að skila núna aukinni tekjuhlutdeild efstu tekjuhópanna umfram aðra, jafnvel þó að atvinnutekjur þeirra haldist í hendur við ólíka tekjuhópa. Það hefur verið meiri vöxtur í fjármagnstekjunum og öllum eignatekjum yfirleitt á síðustu fjórum til fimm árum heldur en vöxtur atvinnutekna. Þetta eykur líka á þennan ójöfnuð sem kemur út úr skattkerfinu.“
Þetta segir Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur var síðastliðið miðvikudagskvöld.
Ekki hafa allir verið sammála Stefáni í því að ójöfnuður ríki á Íslandi, og meðal annars hefur verið vísað í tölur frá OECD og hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, því til stuðnings.
Stefán segir þó ýmislegt vanta inn í þær tölur, meðal annars um helming af öllum fjármagnstekjum sem falla til hérlendis árlega. „Sá hluti tekna er óvenju stór á Íslandi og hann fer fyrst og fremst í efstu hópana. Þær tölur vanmeta því svolítið ójöfnuðinn. En þrátt fyrir það erum við auðvitað í jafnari kantinum. En við erum samt í dag á mun hærra ójafnaðarstígi en við vorum fyrir 15-20 árum. En flestar aðrar vestrænar þjóðir hafa verið að fara í átt að auknum ójöfnuði sem eru þessi áhrif hnattvæðingar, fjármálavæðingar og allt það.“