Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að Miðflokkurinn muni nú fara fram á að kosið verði í nefndir Alþingis á nýjan leik, eftir að Karli Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson - sem reknir voru úr Flokki fólksins eftir Klaustursmálið - ákváðu að ganga til liðs við Miðflokkinn.
Þetta kemur fram í bréfi sem hann hefur sent flokksmönnum í Miðflokknum, og vitnað er til í frétt ámbl.is.
Eftir komu Karl Gauta og Ólafs í þingflokk Miðflokksins er hann orðinn fjölmennastur flokka í stjórnarandstöðu, með níu þingmenn. Sigmundur Davíð fagnar komu þeirra í bréfinu, og segir þá hafa verið samherja í stórum málum stjórnmálanna.
„Við höfum flutt mál saman og verið traustir samherjar í stjórnarandstöðu. Raunar höfum við Ólafur verið samtaka í baráttu fyrir stórum málum á borð við endurskipulagningu fjármálakerfisins í um áratug og ég náði strax mjög vel saman við Karl Gauta sem var sessunautur minn á fyrsta þingi þessa kjörtímabils og samherji í stórum prinsippmálum,“ segir Sigmundur Davíð í fyrrnefndu bréfi.
Í þingflokki Miðflokksins eru nú auk Sigmundar Davíðs, Karls Gauta og Ólafs, þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Þorsteinn Sæmundsson, Bergþór Ólason, Sigurður Páll Jónsson og Birgir Þórarinsson.
Sviku flokkinn
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, skrifaði harðorða grein í Morgunblaðið um þessa tvo fyrrverandi félaga sína í janúar. Þar sagði hún mennina tvo einungis hafa átt eitt erindi á Klaustur Bar þetta kvöld og að þeir hafi mætavel vitað hvað til stóð. „Þeir voru að svíkja flokkinn sem kom þeim á þing. Er uppvíst varð hvað þarna hafði farið fram átti stjórn Flokks fólksins engan annan kost en að fara fram á afsögn þessara tveggja þingmanna.“
Inga sagði að enginn stjórnmálaflokkur hefði getað látið forystumenn þingflokks síns eins og Ólaf og Karl Gauta komast upp með önnur eins svik og framin hafi verið á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn án þess að slíkir stjórnmálamenn hefðu verið látnir axla ábyrgð. „Með þá Ólaf og Karl Gauta áfram innanborðs hefði þingflokkur Flokks fólksins ekki aðeins verið óstarfhæfur heldur einnig meðsekur í þeirri andstyggð sem fram fór á Klaustur Bar.“
Inga sagði fyrrum félaga sína, þá Ólaf og Karl Gauta, nú vera farna í sögubækurnar sem fyrstu þingmenn lýðveldissögunnar sem séu látnir sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar með því að þeir eru reknir úr sínum eigin flokki fyrir afbrot sín. „Engir nema þeir sjálfir frömdu þau ótrúlegu afglöp að fara til samsærisfundar við stjórn flokks pólitískra andstæðinga Flokks fólksins á Klaustur Bar, steinsnar frá Alþingishúsinu þann 20. nóvember síðastliðinn. Öll heimsbyggðin hefur þegar fengið að frétta af því í fjölmiðlum hvað gerðist þar.“
Inga sagði að fundurinn á Klausturbar hafi haft skýrt markmið: að fá Ólaf og Karl Gauta til að ganga til liðs við Miðflokkinn. „Þess vegna sat gervöll stjórn Miðflokksins á barnum Klaustri með þeim. Tilefni fundarins augljóst, þessi „hættulegi“ flokkur fátæka fólksins sem auðmaðurinn Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson] og félagar hans vildu fyrir hvern mun koma fyrir kattarnef.“