Íslenska leikjafyrirtækið Teatime, sem stofnað var af Þorsteini Friðrikssyni, sem áður hefur meðal annars stofnað fyrirtækið Plain Vanilla, hefur sett nýjan leik í loftið, Hyperspeed, og hefur hann vakið mikla athygli í Bandaríkjunum.
Leikurinn byggir á nýrri tækni sem er lýst sem næstu kynslóð leikjatækni fyrir farsíma. Með henni er svonefnd AR-tækni (e. augmented reality) nýtt í leik þar sem notendur eru tengdir saman í vídeó-samtali.
Í viðtali við Forbes segir Þorsteinn að teymið hjá Teatime sé spennt fyrir því að koma leiknum og tækninni í loftið. Næsta mál á dagskrá sé að búa til fleiri leiki fyrir Teatime Live leikjaviðmótið og vinna með erlendum leikjafyrirtækjum.
Þorsteinn stofnaði áður Plain Vanilla, sem framleiddi Quiz Up spurningaleikinn vinsæla. Það var að lokum keypt af Glu Mobile, fyrir um 7,5 milljónir Bandaríkjadala, eða rétt um 900 milljónir króna. Á starfstíma sínum náði fyrirtækið í um 40 milljónir Bandaríkjadala, eða um 5 milljarða króna, og var hjartað í starfseminni við Laugaveg í Reykjavík. Notendur voru um 100 milljónir, af því er segir í umfjöllun TechCrunh.
Teatime hefur nú þegar náð í 9 milljónir Bandaríkjadala, eða tæplega 1.100 milljónum króna, meðal annars frá sjóðnum Index Ventures og Atomico. Fyrirtækið er staðsett í Reykjavík, og hefur verið að stækka ört að undanförnu, enda mikill vöxtur framundan.