Aðalfundi Íslandspóst, dótturfélags ríkisins, var frestað að beiðni Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, en stefnt er að því að halda hluthafafund áður en aðalfundur fer fram. Samtímis frestast birting ársskýrslu fyrirtækisins.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, en heimildir blaðsins herma að launaskrið hafi verið töluvert hjá stjórnendum fyrirtækisins á árinu 2018, og að laun Ingimundar Sigurpálssonar, forstjóra, hafi hækkað umtalsvert á sama tíma og fjárhagsstaða fyrirtækisins versnaði hratt.
Ekki hafa komið fram neinar skýringar á frestun fundarins.
Í umfjöllun Fréttablaðsins í dag, segir meðal annars: „Árið 2017 hækkaði stjórn ÍSP laun forstjóra fyrirtækisins um 25 prósent og í ársbyrjun 2018 greiddi félagið launauppbót til starfsmanna sinna í ljósi góðrar afkomu. Á haustmánuðum var staðan hins vegar sú að eigið fé reyndist uppurið og veðrými í fasteignum sömuleiðis. Því lokaði viðskiptabanki þess, Landsbanki Íslands, fyrir frekari lán. Þess vegna leitaði ÍSP á náðir ríkisins sem lánaði félaginu 500 milljónir
og veitti heimild til að lána allt að milljarð til viðbótar á þessu ári þótt ekki væri búið að greina í hverju rekstrarvandinn liggur.“
Í stjórn Íslandspósts eru Bjarni Jónsson, Eiríkur Haukur Hauksson, Svanhildur Hólm Valsdóttir, Halldór Gunnarsson og Thomas Möller.