Enginn loðnukvóti verður gefinn fyrir þessa vertíð, eins og greint var frá fyrr í dag. Það verður að teljast mikið högg fyrir þjóðarbúið og útgerðirnar sem stunda loðnuveiðar, vinnslu og sölu.
Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands var loðnu flutt út á erlenda markaði fyrir 18 milljarða í fyrra, og 18,3 milljarða árið 2016. Árið 2015 var vertíðin mun betri en þá fengust rúmlega 29 milljarðar fyrir loðnuna.
Til samanburðar nam heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða um 197 milljörðum í fyrra, 232,2 milljörðum árið 2017 og 264 milljörðum árið 2015. Gengi krónunnar spilar þarna stóra rullu, en gengi krónunnar styrktist nokkuð gagnvart helstu viðskiptamyntum árin 2016 og 2017, sem skýrir að hluta mikinn munn á heildarverðmæti frá árinu 2015.
Í fundargerð bæjarráðs Fjarðabyggð, þar sem loðnuvinnsla er mikið hryggjarstykki í atvinnulífi, hefur verið bókað að staðan sé áhyggjuefni.
„Óvíða er uppsjávarvinnsla meiri en í Fjarðabyggð og ljóst er að loðnubrestur mun hafa mikil áhrif á fjárhag sveitarfélagsins. Þá er einnig mikið áhyggjuefni að ekki er búið að ljúka samningum um kolmunnaveiðar í Færeyskri lögsögu, sem ekki síður hefur mikil áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin í Fjarðabyggð,“ segir í fundargerðinni.