Bankaráð Seðlabanka Íslands segir í greinargerð sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að eðlilegt sé að bankinn taki sögu fjármagnshaftanna, sem sett voru á í nóvember 2008 í kjölfar hruns bankanna, til gaumgæfilegrar skoðunar.
Greinargerðin er ítarleg en í henni farið yfir forsendur fjármagnshaftanna, þó tilefni hennar séu mál sem tengjast Samherja.
Segir í greinargerðinni að brýnt sé að bankinn taki til sín gagnrýni frá Umboðsmanni Alþingis. Bankinn hefur nú þegar sagt að hann muni endurgreiða allar sektir og sáttagreiðslur, vegna rannsókna og kærumeðferða, þar sem staðfest hafi verið að engin lagastoð hafi verið fyrir aðgerðum.
„Seðlabankinn þarf að fara yfir Samherjamálið og einnig önnur mál sem lauk með sáttum eða
sektum til að tryggja að meðferð bankans í þessum málum hafi verið samkvæmt lögum og fyllsta jafnræðis verði gætt. Brýnt er að bankinn taki þá gagnrýni sem fram hefur komið af hálfu umboðsmanns Alþingis til ítarlegrar skoðunar. Hið sama gildir um niðurstöður dómstóla og saksóknara sem fengið hafa mál vegna meintra brota á fjármagnshöftum til afgreiðslu. Það er bæði mikilvægt til að gera upp þessa fortíð með tilhlýðilegum hætti og til að draga af henni eðlilegan lærdóm inn í framtíðina.
Hér skiptir máli að það er erfið reynsla fyrir hvort heldur einstaklinga eða forsvarsmenn fyrirtækja að verjast þungum ásökunum eftirlitsstofnunar eins og Seðlabankans jafnvel þótt þeim takist að hnekkja málatilbúnaði stofnunarinnar á endanum. Þeir sem borið hafa kostnað eða tjón vegna mistaka í stjórnsýslu Seðlabankans kunna að eiga rétt á skaðabótum úr hendi Seðlabankans,“ segir í umfjöllun bankaráðs.
Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, segir greinargerðina mikinn áfellisdóm yfir stjórnendum Seðlabanka Íslands. „Í greinargerðinni kemur fram að seðlabankinn hefur ekki einungis beitt fyrirtæki og einstaklinga fordæmalausri og tilefnislausri valdníðslu heldur einnig freistað þess að beita sömu framgöngu gagnvart öðrum stjórnvöldum, Umboðsmanni Alþingis og nú síðast sjálfum forsætisráðherra. Þannig gerði bankinn tilraun til þess að koma í veg fyrir að bankaráðið svaraði bréfi forsætisráðherra með yfirlýsingum og hótunum um að þar væri um brot á trúnaði að ræða. Bankaráðið og einstakir bankaráðsmenn sem skila sérstökum bókunum, fordæma harðlega með margvíslegum hætti og orðalagi framgöngu seðlabankans í málefnum Samherja og annarra sem urðu fyrir barðinu á bankanum. Fjallað er um lítt dulda misbeitingu valds af hálfu stjórnenda seðlabankans og hversu langt þeir hafa gengið til að freista þess að viðhalda ólögmætum ákvörðunum sínum,“ segir Garðar.
Í greinargerð bankaráðsins segir að þó höftin hafi verið neyðarúrræði þá hvíli skylda á stjórnsýslunni að fara að settum lögum og reglum, og gæta að réttlátri málsmeðferð.
„Hér skiptir máli að jafnvel þótt höftin hafi verið neyðarúrræði og brýn sem slík þá hvílir jafnvel við slíkar aðstæður rík skylda á opinberri stofnun sem falið er hlutverk við eftirlit og refsingar að fullnægja ítrustu kröfum um gæði og réttlæti málsmeðferðar. Þá þarf vinnan ætíð að byggja á
traustum refsiheimildum.
Á svipaðan hátt urðu margir innlendir aðilar, þeir sem stunduðu inn- eða útflutning og fleiri, að setja sig inn í ný og flókin hlutverk sem þeir höfðu engan veginn búið sig undir.
Þeir urðu að fara eftir glænýju og að mörgu leyti flóknu og síbreytilegu regluverki í viðskiptum sem sjálf voru oft flókin. Sérstaklega var þetta erfitt fyrir innlend fyrirtæki sem voru hlutar af fyrirtækjasamstæðum sem fluttu tekjur, gjöld, hagnað og fjármögnun yfir landamæri,“ segir í greinargerðinni.
Gylfi Magnússon, formaður, Bolli Héðinsson, Frosti Sigurjónsson, Jacqueline Clare Mallett, Sigurður Kári Kristjánsson, Una María Óskarsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir eru í bankaráðinu.
Harðorð bókun frá Þórunni og Sigurði Kára
Í greinargerðinni birtast sérstakar bókanir, meðal annars frá Unu Maríu Óskarsdóttur, Frosta Sigurjónssyni og síðan sameiginlega frá Bolla Héðinssyni og Jacqueline Clare Mallett, og Þórunni Guðmundsdóttur og Sigurði Kára Kristjánssyni.
Í bókun Þórunnar og Sigurðar Kára er Seðlabankinn, og lögfræðiráðgjöf bankans, gagnrýnd harðlega.
Í bókun þeirra segir meðal annars: „Þær ályktanir sem meðal annars má draga af áliti umboðsmanns eru þær að Seðlabankinn hafi tekið ákvörðun um að leggja stjórnvaldssekt á /.../ þrátt fyrir að hafa vitað eða mátt vita að sú ákvörðun skorti viðhlítandi lagastoð og að Seðlabankinn hefði síðar réttlætt þá ákvörðun sína með því að gera umboðsmanni Alþingis upp afstöðu til réttlætingar á gerðum bankans án þess að rétt væri með farið. Í ljósi þess að sömu upplýsingar lágu fyrir þegar bankinn tók ákvörðun um að leggja sekt á Samherja hf., sama dag, hlýtur gagnrýni umboðsmanns einnig að eiga við um þá sektargerð og lögmæti hennar.“
Þá segir enn fremur, að þrátt fyrir að viðfangsefni haftanna hafi verið flókin og aðstæður erfiðar, þá þurfi að fara að lögum. „Sú staðreynd breytir því hins vegar ekki að ef stjórnvald misfer með vald sitt þá er réttmætt að það sæti ábyrgð og mistökin séu leiðrétt. Umboðsmaður Alþingis hefur sýnt fram á í áliti sínu frá 22. janúar 2019 að Seðlabankinn lagði stjórnvaldssekt á Samherja hf., þrátt fyrir að þá þegar hafi legið fyrr rökstuddar ábendingar ríkissaksóknara um að lagaheimild um slíka stjórnvaldssekt skorti. Að mínu mati eru það ekki haldbær rök hjá Seðlabanka að vísa þar til jafnræðisreglu, að ef eitt fyrirtæki væri sektað þá ætti það sama að ganga yfir þau öll, því í millitíðinni hafði bankinn upplýsingar um að sú sektargerð stæðist ekki lög. Það liggur í hlutarins eðli að ef stjórnvald misfer með vald sitt og beitir íþyngjandi refsingum þá þarf það stjórnvald að sæta ábyrgð vegna þess og um leið að rétta hlut þess sem brotið er á.“