Hlutabréf í Icelandair rukku upp í verði eftir hádegið í dag, en heildarviðskipti með bréf félagsins námu 347 milljónum. Markaðsvirði félagsins hækkaði um 7,52 prósent, mest allra félaga í kauphöllinni. Nemur markaðsvirði félagsins nú um 40 milljörðum króna.
Rekstur Icelandair hefur verið þungur að undanförnu, og nam tap félagsins 57 milljónum Bandaríkjadala á fjórða fjórðungi síðasta árs, eða sem nemur um 6,8 milljörðum króna. Miklar sveiflur hafa verið á markaðsvirði félagsins á markaði frá degi til dags, undanfarna mánuði.
WOW air enn í viðræðrum
Helsti samkeppnisaðili Icelandair á Íslandi, WOW air, er enn í viðræðum við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners, en búast má við því að það dragi til tíðinda í þeim viðræðum í dag, en frestur sem skuldabréfaeigendur félagsins gáfu til að ljúka viðræðum rennur út um mánaðarmótin.
Vefsíðan Túristi greindi frá því í gær, að greint verði frá lokum viðræðna og niðurstöðu úr þeim, með tilkynningu til kauphallar, sem síðan verður birt á vefsíðu WOW air.
Fundað hefur verið um stöðu mála í dag, samkvæmt heimildum Kjarnans, en engin tíðindi hafa borist enn.
WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra. Á sama tímabili árið á undan nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi.
Markaðurinn greindi frá því í gær, að forsvarsmenn WOW air hafi gengið undir lok síðustu viku frá heildstæðu samkomulagi við leigusala lággjaldaflugfélagsins. Með samkomulaginu var síðasta skilyrðinu sem stendur í vegi fyrir fjárfestingu Indigo Partners, upp á um 9 milljarða, í flugfélaginu fullnægt, að því er fram kom í Markaðnum.
Í desember síðastliðnum var um 350 starfsmönnum WOW air sagt upp störfum, en það var liður í hagræðingu félagsins og endurskipulagningu, í ljósi þröngrar fjárhagsstöðu og viðræðna við Indigo Partners.