Rekstrartekjur Félagsbústaða námu rúmum 4 milljörðum á árinu 2018 og jukust um tæp 10 prósent milli ára. Aukning tekna skýrist af fjölgun leiguíbúða á árinu 2018 en félagið leigir nú út tæplega 2600 íbúðir í Reykjavík og vegna vísitölubundinnar hækkunar leiguverðs um 2,8 prósent á árinu. Rekstrargjöld hækkuðu um 9 prósent milli áranna 2017 og 2018.
Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 sem staðfestur var af stjórn í gær.
Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að sjóðstreymi Félagsbústaða sýni að handbært fé frá rekstri sé 558 milljónir króna samanborið við 653 milljónir árið áður. Afborganir lána nemi 641 milljónum króna og heildaskuldir 41.052 milljónum króna. Þær hafi hækkað um 3.643 milljónir á árinu en Félagsbústaðir keyptu fasteignir fyrir 2.972 milljónir króna og vörðu 935 milljónum í viðhald á fasteignum sínum á árinu.
Afkoma ársins fyrir fjármagnsliði, eða EBIT, nam 1.816 milljónum króna eða 45,1 prósent af rekstrartekjum. Matshækkun fjárfestingaeigna fyrir árið nam 2.942 milljónum króna og hagnaður ársins 2.384 milljónum króna.
Virði fjárfestingaeigna í lok ársins er 83.203 milljónir krónur og eigið fé er 42.641 milljónir. Eiginfjárhlutfall í lok er 51 prósent og vaxtaberandi skuldir í lok árs nema 37.790 milljónum króna.
Bókfærður hagnaður af rekstri Félagsbústaða á árinu 2018 nam 2.384 milljónum króna og er hann allur tilkominn vegna hækkunar á virði eigna sem tekur mið af fasteignamati, segir í tilkynningunni.
Félagið er stærsti eigandi félagslegs húsnæðis á landinu og um leið stærsta leigufélag landsins. Leiguíbúðum í eigu Félagsbústaða í Reykjavík hefur fjölgað um 400 frá árinu 2014 en í lok árs 2018 áttu Félagsbústaðir 2.618 íbúðir. Stefnt er að því að þær verði orðnar 3.170 árið 2022.