Stórar siðferðislegar spurningar fylgja þeirri þróun sem nú á sér stað með og það þarf að setja umfangsmikilli upplýsingasöfnun mun skýrari skorður.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri skýrslu um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna, en þar er fjallað um þær áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir vegna tækniframfara og innleiðingar á gervigreind í hin ýmsu störf.
Í skýrslunni er meðal anars fjallað um ýmis siðferðileg álitamál, og er meðal annars vikið að því hvernig upplýsingasöfnun um einstaklinga hefur aukist mikið á undanförnum árum.
„Skýrt dæmi um þetta er hin mikla söfnun persónuupplýsinga sem á sér stað á veraldarvefnum og á samfélagsmiðlum. Söfnun upplýsinga er ekki ný af nálinni en tækniþróun síðustu ára hefur aukið umfang hennar gríðarlega. Þannig áætluðu sérfræðingar hjá IBM að 90% af þeim rafrænum gögnum sem til væru í dag hefðu orðið til á síðustu fimm árum,“ segir í skýrslunni.
Þá er einnig nefnt að misnotkun á persónuupplýsingum sé líkleg til að stigmagnast á næstu árum, og mikilvægt sé fyrir Ísland að huga að öryggismálum hvað þetta varðar. „Á næstu árum munu samfélög þurfa að glíma við misnotkun persónuupplýsinga og hættur vegna þess að öryggi upplýsinga er ekki gætt nægjanlega vel. Og þó að mikilvæg réttarbót felist í nýjum persónuverndarlögum þarf að setja upplýsingasöfnun miklu skýrari skorður,“ segir í skýrslunni.
Er rétt að forrita bílinn þannig?
Fjallað er um ýmsar hliðar tækniframfara í skýrslunni, og meðal annars komið inn á sjálfkeyrandi bíla og hvernig siðferðislegar spurningar vakni með tilkomu þeirra. „Ef tölva tekur ákvörðun um ríka hagsmuni fólks og ákvörðunin stenst ekki siðferðilega skoðun hver ber þá ábyrgð á ákvörðuninni? Nátengt þessum vanda er líka hvernig á að forrita tölvur til að taka ákvarðanir um mál þar sem siðareglur stangast á eða þegar aðstæður eru þannig að allir valkostir í stöðunni geta haft alvarlegar afleiðingar. Segjum til dæmis að sjálfkeyrandi bíll stefni á fimm einstaklinga en hægt sé að forða því tjóni með því að sveigja af leið og þannig verði aðeins einn einstaklingur fyrir bílnum er rétt að forrita hann þannig?“ segir í skýrslunni.
Í starfshópnum sem tók skýrsluna saman voru Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður, Lilja Dögg Jónsdóttir, Guðmundur Jónsson, Ragnheiður H. Magnúsdóttir og Kristinn R. Þórisson.