Laun Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, hækkuðu um 24 prósent milli ára samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í ársreikningi fyrirtækisins, úr 304 þúsund dölum í 379 þúsund dali. Ástæðan fyrir því að launakjörin eru gefin upp í þeim gjaldmiðli er að Landsvirkjun gerir upp rekstur sinn í Bandaríkjadölum, helstu viðskiptamynt fyrirtækisins.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum frá Landsvirkjun um hvað útskýrði þessa hækkun og hver mánaðarlaunin væru umreiknuð í íslenskar krónur.
Í svari fyrirtækisins segir að munurinn á uppgefnum árslaunum og hlunnindum forstjóra milli áranna 2017 og 2018 eins og þau eru gefin upp í ársreikningnum sé til kominn annars vegar vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á launum Harðar um mitt ár 2017, þegar ákvörðun um þau laun var færð frá kjararáði til stjórnar Landsvirkjunar, og hins vegar vegna „breytinga á hlunnindamati vegna bifreiðar“. Þá hafi verið einhver gengismunur milli ára sem hafi áhrif á launin eins og þau eru framsett í ársreikningnum.
Mánaðarlaun Harðar án hlunninda eru 3.207.294 krónur á mánuði og hafa verið þannig frá miðju ári 2017, þegar þau voru hækkuð úr um tveimur milljónum króna á mánuði, eða um 58 prósent. „Bifreiðahlunnindi hafa verið hluti af starfskjörum forstjóra Landsvirkjunar. Bifreiðahlunnindi eru metin samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um mat á hlunnindum og voru árið 2018 kr. 219.668 á mánuði. Árið 2017 voru þau metin á kr. 87.383 á mánuði og kom breytingin milli ára til vegna bifreiðaskipta en eldri bifreið var 13 ára gömul,“ segir í svari Landsvirkjunar. Bifreiðarhlunnindin jukust því um 151 prósent milli ára, eða um 132.285 krónur á mánuði. Alls námu bifreiðahlunnindi Harðar 2.636.016 krónum á árinu 2018.
Laun og hlunnindi Harðar voru því 3.426.962 krónur á mánuði í fyrra og hækkuðu úr 3.294.677 krónum árið áður, eða um fjögur prósent.
Voru að efna ráðningarsamning
Í svari Landsvirkjunar segir að sú breyting sem gerð var á launum forstjóra Landsvirkjunar um mitt ár 2017 hafi verið rökstudd á sínum tíma í yfirlýsingu og bréfi stjórnarformanns fyrir hönd stjórnar til fjármála- og efnahagsráðherra. „Með breytingunni var stjórn Landsvirkjunar að efna ráðningarsamning við forstjóra fyrirtækisins frá árinu 2009 eftir að laun hans voru lækkuð verulega með úrskurði kjararáðs á árinu 2010. Þáverandi stjórn Landsvirkjunar mótmælti þeirri ráðstöfun, enda þýddi hún að fyrirtækinu var ómögulegt að efna ráðningarsamning við forstjórann. Í bréfi þáverandi stjórnarformanns frá 24. ágúst 2012, fyrir hönd stjórnar fyrirtækisins, til forstjóra, lýsti stjórnin því yfir að hún myndi eftir því sem kostur væri leiðrétta laun- og starfskjör forstjóra í samræmi við upphaflegt efni ráðningarsamnings. Til þess að efna ráðningarsamninginn og í samræmi við samþykkt fyrri stjórnar ákvað stjórn Landsvirkjunar á árinu 2017 að uppfæra laun forstjóra með hliðsjón af launaþróun og tók breytingin gildi 1. júlí það ár.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sendi í síðasta mánuði bréf til stjórna allra ríkisfyrirtækja og óskaði eftir skýringum á launaþróun forstjóra þeirra og hvernig sú launaþróun rímaði við tilmæli um að sýna hófsemd í launahækkunum. Svarbréf stjórnanna hafa ekki verið birt og Kjarninn hefur ekki fengið þau afhent hjá ráðuneytinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir um slíkt.
Birta ekki sundurliðun á launum stjórnarmanna
Kjarninn óskaði einnig eftir því að fá upplýsingar um sundurliðun á launum stjórnarmanna í Landsvirkjun og launum stjórna tveggja dótturfélaga. Í ársreikningi fyrirtækisins kom fram að laun stjórnar móðurfélags hafi í heild verð 195 þúsund dalir í fyrra en hækkað úr 189 þúsund dölum árið áður, eða um þrjú prósent, og að laun stjórna tveggja dótturfélaga hafi aukist úr 158 þúsund dölum í 174 þúsund dali á síðasta ári, eða um tíu prósent.
Landsvirkjun varð ekki við beiðni Kjarnans um að birta sundurliðun á launum stjórnarmanna. Í svari fyrirtækisins við fyrirspurn hans segir: „Sundurliðuð laun stjórnarmanna hafa ekki verið birt.“
Í stjórn Landsvirkjunar sitja Jónas Þór Guðmundsson, sem er formaður stjórnar, Álfheiður Ingadóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Gunnar Tryggvason og Jón Björn Hákonarson.
Í starfskjaranefnd sitja þrír stjórnarmenn, Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir og Jón Björn Hákonarson.