Fjórir hafa greinst með mislinga á Íslandi á skömmum tíma, og þar af eru tvö börn, sem eru innan við 18 mánaða aldur og því ekki búin að fá bólusetningu við sjúkdómnum. Um 90 Íslendinga eru með bólusetningu við mislingum, en mislingatilfellum hefur fjölgað hratt í Evrópu á undanförnum tveimur árum og það sama á við um Bandaríkin.
Tilfellin fjögur má rekja til flugferðar til Egilsstaða. Maður með mislinga kom hingað til lands um miðjan mánuð, og fór svo með innanlandsflugi til Egilsstaða, þar sem tvö börn, bæði undir 18 mánaða gömul, hafi smitast.
Í viðtali við Síðdegisútvarp RÚV sagði Ásgeir Haraldsson professor í barnalækningum að annað barnið hafi verið lagt inn á sjúkrahús og sé á batavegi. „Bæði þessi börn eru innan við 18 mánaða gömul en það er einmitt við þann aldur sem fyrsta mislingabólusetningin er gefin. Það er ágætt að það komi fram að það er ekki við neinn að sakast. Það er ekki neinn sem gerði neitt vitlaust. Það var ekki neinn sem gleymdi eða vildi ekki láta bólusetja. Því er ekki til að dreifa. Þetta eru frábærir foreldrar yfirvegaðir og skynsamir en börnin voru bara ekki komin á þann aldur að það eigi að bólusetja þau,“ sagði Ásgeir.
Mislingatilfellum hefur fjölgað verulega að undanförnu bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Bólusetning við mislingum fer yfirleitt fram við 18 mánaða aldur, en þeir sem hafa ekki bólusetningu geta átt á hættu að veikjast illa og lífshættulega, enda mislingar bráðsmitandi.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur ítrekað hvatt til bólusetninga við mislingum og öðrum sjúkdómum sem hindra má útbreiðslu við, með bólusetningum.