Flóki Halldórsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri Stefnis í áratug, mun láta af störfum um komandi mánaðamót og setjast í stjórn Stefnis, sem er stærsta sjóðstýringarfyrirtæki landsins og í eigu Arion banka.
Alls eru 340 milljarðar króna í virkri stýringu hjá Stefni og hjá fyrirtækinu starfa um 20 sérfræðingar. Sjóðir stefnis eru til að mynda á meðal stærstu fagfjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði.
Hrund Rudolfsdóttir, stjórnarformaður Stefnis, segir að síðustu tíu ár hafi verið viðburðarík. Þau hafi „einkennst af markvissri og árangursríkri uppbyggingu sem leidd hefur verið af Flóka Halldórssyni. Þó hann kjósi nú að leita á ný mið, þá er það ánægjulegt að hann hefur þekkst boð um að taka sæti í stjórn Stefnis á næsta aðalfundi og mun félagið því áfram njóta hans þekkingar og reynslu. Fyrir hönd Stefnis vil ég þakka Flóka hans mikla framlag til félagsins á þessum umbrotatímum, en persónulega fyrir einstaklega ánægjulegt og árangursríkt samstarf í heilan áratug. Ég vil jafnframt bjóða Jökul velkominn til starfa og er þess fullviss að hans víðtæka reynsla muni nýtast félaginu vel til frekari uppbyggingar á komandi árum.“