Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að íslenska hagkerfið standi nú frammi fyrir miklum áskorunum eftir mikið vaxtartímabil. Mikilvægt sé að takast á við þær af festu og ábyrgð.
Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Lilju í Seðlabanka Danmerkur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Staða og horfur efnahagsmála voru til umfjöllunar í fyrirlestri Lilju. Fyrirlesturinn var hluti af Danmerkurferð ráðherra en að auki fundaði hún með ráðherrum mennta- og menningarmála
og ræddi samstarf ríkjanna á þeim sviðum. „Góður árangur Íslands í efnahagsmálum eftir fjármálakreppuna 2008 hefur vakið eftirtekt víða erlendis. Staða landsins er ágæt að ýmsu leyti enda er skuldastaða ríkissjóðs góð í alþjóðlegum samanburði,
erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð og gjaldeyrisvaraforði þjóðarbúsins öflugur. Þannig
hefur viðnámsþróttur hagkerfisins styrkst. Hins vegar stendur íslenskt efnahagslíf frammi fyrir viðamiklum
áskorunum um þessar mundir eins og kólnun hagkerfisins, stöðunni í kjaraviðræðum, horfum í ferðaþjónustu og ástandi loðnustofnsins. Það er mikilvægt að takast á við þessar áskoranir af festu og ábyrgð til að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn í landinu,“
sagði Lilja Alfreðsdóttir meðal annars, af því er fram kemur í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Lilja á sæti í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins.
Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmd
efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum en meðal verkefna sem nefndin fjallar um er framtíðarskipulag peningamála og samræming í fjármálum hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Nefndin er auk þess stefnumótandi og í forystu varðandi samskipti við aðila vinnumarkaðarins,
uppbyggingu fjármálakerfisins og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi með tilliti til efnahagsmála.