Félagsmenn í VR samþykktu í hádeginu í dag verkfallsaðgerðir í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Frá þessu er greint á vef VR.
Rúmlega helmingur, 52,25 prósent, samþykktu verkfallsaðgerðirnar en 45,33 prósent kusu á móti. Fjórtán manns tóku ekki afstöðu eða 2,42 prósent. Á kjörskrá voru 959 félagsmenn VR og alls greiddu 578 þeirra atkvæði, sem þýðir að þátttaka í atkvæðagreiðslunni var um 60,27 prósent. Einfaldur meirihluti dugði og því var tillagan um boðun verkfalla samþykkt í atkvæðagreiðslunni.
Nú verði að setja fullan kraft í að klára samningaviðræður
Í tilkynningu VR segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, niðurstöðuna ekki koma sér á óvart.„Réttlætistilfinningu félagsmanna er misboðið en verkfallsátök eru grafalvarlegur hlutur. Þetta er ákall um að nú verði að setja fullan kraft í að klára samningaviðræður, annað væri ábyrgðarleysi,“ segir Ragnar Þór.
Verkfallsaðgerðir hefjast 22. mars
Verkfallsaðgerðirnar dreifast á 15 daga og fyrsta verkfallið er fyrirhugað 22. mars og svo allt að fimm tveggja og þriggja daga verkfalla fram að ótímabundnu verkfalli 1. maí.
Verkfallið gildir fyrir eftirfarandi fyrirtæki:
- Fosshótel Reykjavík ehf.
- Íslandshótel hf.
- Flugleiðahótel ehf.
- Cabin ehf.
- Hótel Saga ehf.
- Miðbæjarhótel/Centerhotels ehf.
- Hótel Klettur ehf.
- Örkin Veitingar ehf.
- Keahótel ehf.
- Hótel Frón ehf.
- Hótel 1919 ehf.
- Hótel Óðinsvé hf.
- Hótel Leifur Eiríksson ehf.
- Hótel Smári ehf.
- Fjörukráin ehf. (Hotel Viking)
- Hótel Holt Hausti ehf.
- Hótelkeðjan ehf.
- CapitalHotels ehf.
- Kex Hostel
- 101 (einn núll einn) hótel ehf
Félagsmenn Eflingar hafa einnig samþykkt verkfallsaðgerðir í hótelum og hópbifreiðum
Félagsmenn Eflingar samþykktu boðun verkfalla meðal starfsfólks á hótelum, í rútufyrirtækjum og hjá almenningsvögnum Kynnisferða með meirihluta greiddra atkvæða á sunnudaginn. Um 92 prósent þeirra sem afstöðu tóku samþykktu verkfallsboðanirnar.