Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segist bera virðingu fyrir ákvörðun Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, um að stíga til hliðar sem dómsmálaráðherra.
Hún sé með þessu að segja af sér sem ráðherra og muni nýr ráðherra taka við ráðuneytinu, að loknum ríkisráðsfundi.
Hann sagðist vera þeirrar skoðunar að annaðhvort myndi annar ráðherra í ríkisstjórninni gegn ákvörðun dómsmálaráðherra, eftir að Sigríður hefur hætt sem ráðherra, eða að nýr dómsmálaráðherra komi úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins.
Þetta kom fram í samtali Bjarna við blaðamenn á Alþingi eftir þingflokksfundinn.
Bjarni sagðist líta svo á að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu, í hinu svonefnda Landsréttarmáli, hefði komið honum í „opna skjöldu“ og það væri umhugsunarsefni hvort dómstólinn væri farinn að „stíga yfir línu“ með þeirri gagnrýni á íslenska stjórnsýslu sem birtist í dómnum. Hæstiréttur væri æðsti dómstóll Íslands, ekki Mannréttindadómstóll Evrópu.
Samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstólsins braut Ísland gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti. Ástæðan er sú að maðurinn fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir, sem er dómari við réttinn, hafi ekki verið skipuð í hann með lögmætum hætti.
Í dómnum segir meðal annars: „Ferlið varð til þess að valda skaða á því trausti sem dómstóll í lýðræðislegu samfélagi þarf að vekja hjá almenningi og braut í bága við það grundvallaratriði að dómstóll sé löglegur, eina af meginreglum réttarríkisins.“