Eimskip er ósammála niðurstöðu yfirskattanefndar sem staðfest hefur niðurstöðu Ríkisskattstjóra um að Eimskip ætti að greiða skatta af starfsemi erlendra dótturfélaga, en úrskurður nefndarinnar barst í dag, samkvæmt tilkynningu frá Eimskip til kauphallar, og kröfum félagsins hafnað.
Í desember 2017 úrskurðaði Ríkisskattstjóri að Eimskipafélag Íslands hf. skyldi greiða skatta af starfsemi í erlendum dótturfélögum, „sbr. skýringu 24 í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018“ segir í tilkynningunni. Aðalfundur fer fram 28. mars næstkomandi.
„Með vísan til áður birtra upplýsinga eru áætluð áhrif til gjaldfærslu skatta í rekstrarreikningi fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2019 3,4 milljónir evra, en að teknu tilliti til nýtingar á yfirfæranlegu tapi eru greiðsluáhrif áætluð 500 þúsund evrur. Eimskip, sem rekstraraðili kaupskipa í alþjóðlegri samkeppni, er ósammála þessari niðurstöðu yfirskattanefndar og mun í framhaldinu meta stöðu sína varðandi þennan úrskurð,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Markaðsvirði Eimskip er um 34 milljarðar króna, en gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 20 prósent á undanförnu ári. Hagnaður félagsins var 7,4 milljónir evra í fyrra, eða sem nemur um milljarði króna.
Stærsti eigandi félagsins er Samherji Holding ehf., dótturfélag Samherja, en það á 25,3 prósent hlut. Stjórnarformaður félagsins er Baldvin Þorsteinsson og forstjóri Vilhelm Már Þorsteinsson.