„Þessi niðurstaða í Strassborg hún kemur auðvitað í samhengi við áhyggjur sem að margir hafa um þróun lýðræðis í Evrópu. Þar sem að stjórnmálamenn, valdboðsöfl í stjórnmálum, eru farin að teygja sig sífellt lengra í að sölsa undir sig önnur svið ríkisvaldsins. Ekki bara löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, heldur eru farnir að teygja sig inn í sjálft dómsvaldið. Sem á auðvitað að vera sjálfstætt frá öðrum valdþáttum.“
Þetta sagði Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu og afsögn Sigríðar Á. Andersen úr embætti dómsmálaráðherra í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni. Eiríkur var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í þættinum. Hægt er að sjá stiklu úr honum hér að neðan.
Eiríkur sagði að þessi þróun, þar sem valdboðsöfl væru að teygja sig inn í dómsvaldið, væri að eiga sér stað til dæmis í Ungverjalandi og í Póllandi og að það hafi leitt af sér vaxandi áhyggjur í Evrópu. „Með þessum dómi er verið að draga einhverskonar línu í sandinn og segja að það gangi ekki að framkvæmdavaldið sé að krukka í dómsvaldinu með þeim hætti sem hérna er gert. Sérstaklega ekki þegar lögin hérna innanlands heimila það ekki, eins og kemur fram í þessum dómi sem tekur auðvitað mið af íslenskum lögum í þessu máli.
Ég held að það megi virða Sigríði Andersen það til vorkunnar að niðurstaðan er svona afdráttarlaus[...]það hefur með þessar áhyggjur manna að gera.“