Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um eitt prósent í febrúar samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands.
Þetta er mesta lækkun sem hefur sést milli mánaða síðan í desember 2010 þegar íbúðaverð lækkaði um 1,2 prósent milli mánaða, segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.
Vísitala íbúðaverðs mælir breytingu á íbúðaverði samkvæmt þinglýstum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu hverju sinni.
Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 3,7 prósent sem er minnsta 12 mánaða hækkun sem hefur mælst síðan í maí 2012. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1 prósent milli janúar og febrúar og sérbýli ögn meira eða um 1,2, prósent.
Fasteignaverð hefur hækkað mikið á undanförnum árum, en var mesta hækkunin á ári vorið 2017, þegar árshækkun mældist 23,5 prósent.