Hlutabréf í Icelandair Group hafa hækkuðu um 16,05 prósent í fyrstu viðskiptum í morgun, en hækkun á bréfum félagsins þegar þetta er skrifað nemur 10,47 prósentum. Á sama tíma hafa bréf í Arion banka lækkað um 3,22 prósent, eða mest allra félaga í Kauphöll Íslands á fyrstu metrum viðskipta dagsins.
Ástæðan er staða WOW air, en í gær var tilkynnt að Indigo Partners hefðu slitið viðræðum um aðkomu að flugfélaginu og að viðræður um aðkomu Icelandair Group að því hefðu hafist. Arion banki er helsti lánardrottinn WOW air.
Í tilkynningu sem Icelandair Group sendi frá sér til Kauphallar Íslands í gærkvöldi sagði að í kjölfar tilkynningar frá WOW air um slit viðræðna við Indigo Partners hafi stjórn Icelandair Group samþykkt að hefja viðræður við WOW air um aðkomu að rekstri félagsins. „Ef af verður mun aðkoman byggja á sjónarmiði samkeppnisréttar um fyrirtæki á fallandi fæti. Viðræðurnar fara fram í samráði við stjórnvöld.“
Ríkisstjórn Íslands sendi frá sér tilkynningu vegna málsins á nánast sama tíma og tilkynningar flugfélaganna tveggja birtust. Þar sagði: „Stjórnvöld hafa síðasta árið fylgst með erfiðleikum í alþjóðlegum flugrekstri og samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga í því ljósi. Eigendur WOW air hafa um nokkurra mánaða skeið leitað leiða til að tryggja rekstur félagsins og hafa átt viðræður við fjárfesta, flugrekendur og aðra haghafa. Hingað til hafa þær viðræður ekki skilað þeim árangri sem eigandi félagsins stefndi að. Ríkisstjórnin mun áfram fylgjast grannt með framvindunni og bindur vonir við að viðræður félaganna muni skila farsælli niðurstöðu.“
Hávær orðrómur hafði verið uppi um það síðustu daga að viðræðum Indigo Partners við WOW air væri lokið þó að formlega hefði ekki verið tilkynnt um það og flestir viðmælendur Kjarnans sem starfa á markaði reiknuðu með að síðasta björgunartilraunin sem gerð yrði með WOW air yrði alltaf með einhverjum hætti í fangi Icelandair, og að öllum líkindum yrði leitað til stjórnvalda eftir liðsinni.
Í gær hækkuðu hlutabréf í Icelandair Group um 7,77 prósent í 544 milljóna króna viðskiptum. Á sama tíma lækkuðu bréf í Arion banka um 4,24 prósent í 125 milljóna króna viðskiptum. Því virðast þátttakendur á markaði hafa verið byrjaðir að veðja á þessa útkomu áður en að greint var frá henni formlega með tilkynningum.