Siðanefnd Alþingis, sem hefur ráðgefandi hlutverk, hefur skilað forsætisnefnd Alþingis áliti vegna Klaustursmálsins svokallaða.
Sex þingmenn, sem eru allir í Miðflokknum eftir að Ólafur Ísleifsson og Karli Gauti Hjaltason gengu til liðs við hann eftir brottrekstur úr Flokki fólksins, voru þá teknir upp þar sem þeir ræddu meðal annars með fúkyrðum og kvennfyrirlitningu um annað fólk á þingi, meðal annars Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, kallaði hana meðal annars „helvítis tík“ í fyrrnefndum samræðum sexmenningana. Auk Ólafs, Karls Gauta og Gunnars Braga, tóku Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, þátt í umræðunum.
Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson, sérstakir varaforsetar Alþingis vegna málsins, óskuðu eftir álitinu. Hefur nefndin meðal annars það hlutverk að meta hvort málið og hegðun þingmanna heyri undir siðareglur Alþingis.
„Alþingismenn eru opinberar persónur, sú háttsemi sem um ræðir átti sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Þar sem hátternið varðar almenning verður ekki litið á þau atvik sem hér um ræðir sem einkasamtal,“ segir í áliti meiri hluta siðanefndar sem birt hefur verið á vef Alþingis.
Er það mat meirihluta nefndarinnar að samræðurnar sem fóru fram á barnum Klaustri á milli sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins, á þeim tíma sem samræðurnar áttu sér stað, falli undir gildissvið siðareglna þingsins.
Uppfært: Álitið er ekki lengur aðgengilegt á vef Alþingis.