Álit ráðgefandi siðanefndar Alþingis, vegna Klaustursmálsins svonefnda, hefur verið birt á vef Alþingis. Álitið var birt á vef Alþingis í gær, eins og greint var frá á vef Kjarnans, en það var aðeins opinbert í nokkrar mínútur.
Nú hefur það hins vegar verið birt í heild sinni.
Málið er til umfjöllunar umræða sex þingmanna, sem eru í þingflokki Miðflokksins, á Klaustri bar, þar sem þeir létu fúkyrði falla um fólks, og var umræðan tekin upp og frá henni greint í fjölmiðlum.
Meðal annars kallaði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, helvítis tíki.
Lilja lét hafa eftir sér í sjónvarpsviðtali við RÚV að Miðflokksmenn væru „ofbeldismenn“ vegna þess að þessi talsmáti hefði verið ofbeldi gagnvart þeim sem orðin beindust að, meðal annars henni.
Þau sex sem ræddu saman á Klaustri voru Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Þeir tveir síðastnefndu voru hluti af þingflokki Flokks fólksins, þegar málið kom upp, en þeir voru reknir úr honum í kjölfar þess, og gengu þeir að lokum til liðs við Miðflokkinn.
Í áliti siðanefndarinnar kemur fram að umræða þeirra sex sem ræddu saman væri ekki einkasamtal, en nefndin svaraði því ekki í áliti sínu hvort brotið hefði verið gegn siðareglum þingsins.
„Siðareglur alþingismanna gilda um opinbera framgöngu alþingismanna. Meiri hluti siðanefndar lítur svo á að mat á því hvort tiltekin háttsemi falli undir gildissvið siðareglnanna snúist um það hvort um framgöngu opinberra persóna á opinberum stað sé að ræða og að hún varði almenning. Það er mat meiri hluta siðanefndar að allir framangreindir þættir eigi við um þá háttsemi sem forsætisnefnd vísar til í erindi sínu. Alþingismenn eru opinberar persónur, sú háttsemi sem um ræðir átti sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Þar sem hátternið varðar almenning verður ekki litið á þau atvik sem hér um ræðir sem einkasamtal,“ segir í áliti meirihluta nefndarinnar.
Í áliti minnihlutans, sem Róbert H. Haraldsson stendur að, kemur fram að efasemdir kunni að vakna um hvernig þetta máli snertir siðareglur, og það sé óheppilegt hve lítil umræða hefur fari fram um þær. „Á hinn bóginn vakna fjölmargar efasemdir um gildissviðsákvæðið í þessu samhengi. Sjálft orðalag ákvæðisins er hvorki skýrt né afgerandi og kallar á túlkun og bollaleggingar. Sú túlkun er t.d. ekki fráleit, sé stuðst við orðanna hljóðan, að ákvæðið eigi eingöngu við um opinberar erindagjörðir þingmanna. Greinargerðin með þingsályktunartillögunni og önnur skýringargögn eru efnislega rýr og veita afar takmarkaðar leiðbeiningar um hvernig túlka beri gildissviðsákvæðið. Skýrist það m.a. af því að siðareglurnar voru þýddar og staðfærðar en spruttu ekki upp úr grasrótinni af umræðum þingmanna um þau viðmið sem þeir vildu auglýsa sem mælikvarða á störf sín. Óheppilegt er hve lítil umræða virðist hafa farið fram um siðareglurnar,“ segir meðal annars í áliti Róberts.