„Þetta kemur mér ekki á óvart. Ég var alveg þeirrar skoðunar að þetta hefði alveg getað farið svona. Þetta hefði alveg getað gerst með þeim hætti sem síðar gerðist.“
Þetta segir Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður á Rétti, um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða sem féll fyrir um tveimur vikum síðan.
Sigríður Rut er gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í kvöld klukkan 21:00:
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan:
Dómur Mannréttindadómstólsins féll þriðjudaginn 12. mars síðastliðinn. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017. Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig. Sigríður sagði af sér embætti daginn eftir dóminn og óvissa ríkir um starfsemi millidómstigsins vegna dómsins.
Hún segir að í öllu ferlinu, alveg frá því að það var verið að skipa dómaranna í sumarbyrjun 2017, hafi viðvörunarbjöllur hringt, margir sett út á ferlið og miklar deilur. „Þegar á þeirri stundu hefði ráðherrann átt að hugsa „Heyrðu, ef að illa fer hér þá verður katastrófa. Við skulum gera allt sem við getum gert til að lagfæra ferlið ef það þarf og gea það skothelt til að katastrófan verði ekki“. Í seinasta lagi hefði ráðherrann átt, um leið og fyrir lá að dómstólinn ætlaði að dæma í málinu, og málið komið í gegnum allar þessar síur, um leið og þetta liggur fyrir þá átti ráðherrann að skipa starfshóp á núll einni. Okkar helstu og bestu sérfræðinga til þess að vera viss um hvað við ætluðum að gera daginn eftir dóm ef að katastrófan myndi gerast.“
Ef hitt hefði gerst, að málið hefði farið á annan veg, þá hefði verið hægt hefði að henda öllum plönum um aðgerðir vegna katastrófunar. „En katastrófan varð og það var enginn með nein plön. Og það er alvarlegt.“