Á samningafundi VR og Samtaka atvinnulífsins í dag var fundinn umræðugrundvöllur um kröfur félagsins og því var ákveðið að aflýsa þeim verkföllum sem hefjast áttu á miðnætti í nótt og áttu að standa yfir fimmtudaginn 28. mars og föstudaginn 29. mars.
Viðræður halda áfram af fullum krafti.
Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu frá VR, en aðgerðirnar voru skipulagðar með Eflingu.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagðist í viðtali við RÚV í kvöld, telja að verið sé að nálgast hlutina af ábyrgð. „Ég verð að fá að lýsa yfir þeirri afstöu minni að við værum ekki komin hingað nema af því að verkfallsvopnið er beitt vopn og það bítur,“ sagði Sólveig Anna í viðtali við RÚV.
Samtals eru yfir 50 þúsund félagsmenn í þessum tveimur stéttarfélögum.