„Í ljósi umfjöllunar í fjölmiðlum um málefni WOW Air og skuldbindingar félagsins við Arion banka vill bankinn taka fram að stöðvun rekstrar WOW Air mun ekki hafa veruleg bein áhrif á rekstrarafkomu bankans að teknu tilliti til annarra þátta í rekstri bankans. “
Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá Arion banka til Kauphallar Íslands í morgun. Ástæða tilkynningarinnar er að WOW air greindi frá því snemma í morgun að fyrirtækið hefði hætt rekstri. Arion banki er á meðal kröfuhafa WOW air.
Í tilkynningunni segir enn fremur að: „Arion banki verður fyrir einskiptiskostnaði vegna þessa atburðar sem hefur ekki bein áhrif á reglulegar tekjur og almennan rekstrarkostnað bankans. Óvíst er um áhrif þess að WOW Air hættir starfsemi á ferðaþjónustu og íslenska hagkerfið í heild. Fjárhagsleg markmið bankans til næstu ára, t.a.m. varðandi þróun eiginfjár, eru óbreytt.“
Hver sá einskiptiskostnaður verður mun væntanlega koma fram þegar afkoma Arion banka fyrir fyrsta ársfjórðung verður birt 8. maí 2019.