Icelandair hefur virkjað viðbragðsáætlun og mun bjóða sérstök afsláttarfargjöld á almennu farrými til og frá ákveðnum áfangastöðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Fast gjald til eða frá Evrópu er 60 Bandaríkjadalir aðra leiðina með tösku og 100 Bandaríkjadalir til eða frá Bandaríkjunum, fyrir utan skatta og gjöld. Þessi fargjöld verða í boði næstu tvær vikurnar fyrir farþega sem áttu bókað með WOW frá 28. mars til 11. apríl. Farþegar geta haft samband við Icelandair í gegnum síma eða samfélagsmiðla og þurfa að framvísa WOW air flugmiða við bókun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.
Í henni segir að það séu sorgarfréttir að starfsemi WOW air sé hætt og hugur þeirra sé hjá starfsmönnum WOW air. „Við hjá Icelandair munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða farþega og áhafnir WOW við að komast til síns heima.“
Icelandair hefur einnig ákveðið að aðstoða áhafnir WOW air sem voru að störfum erlendis til að komast til síns heima, þeim að kostnaðarlausu.
Allar upplýsingar eru aðgengilegar á sérstakri síðu sem sett hefur verið upp.
„Að gefnu tilefni er rétt að taka fram okkur hafa borist ábendingar um hækkun fargjalda í kerfunum hjá okkur. Við viljum árétta að engar verðbreytingar eru að eiga sér stað hjá Icelandair. Verð á flugmiðum miðast við eftirspurn og síðustu daga og vikur hefur verið mikil ásókn í flug hjá okkur og nú vegna þeirra afsláttarfargjalda sem við erum að bjóða farþegum WOW. Í einhverjum tilfellum eru einungis sæti á efsta farrými laus eða flug fullbókuð,“ segir í tilkynningu frá Icelandair.