Virði bréfa í Icelandair Group hefur hækkað um 13,83 prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöll Íslands í morgun. Nær öll önnur félög sem viðskipti hafa farið fram með bréf í hafa hins vegar lækkað í virði.
Ástæðan eru þau tíðindi að WOW air hafi hætt starfsemi í morgun.
Á meðal þeirra félaga sem hafa lækkað skarpast eru Arion banki (2,93 prósent lækkun), einn helsti kröfuhafi WOW air. Arion banki sendi frá sér tilkynningu til Kauphallar í morgun vegna málefna WOW air þar sem sagði að „í ljósi umfjöllunar í fjölmiðlum um málefni WOW Air skuldbindingar félagsins við Arion banka vill bankinn taka fram að stöðvun rekstrar WOW Air mun ekki hafa veruleg bein áhrif á rekstrarafkomu bankans að teknu tilliti til annarra þátta í rekstri bankans. “
Í tilkynningunni segir enn fremur að: „Arion banki verður fyrir einskiptiskostnaði vegna þessa atburðar sem hefur ekki bein áhrif á reglulegar tekjur og almennan rekstrarkostnað bankans. Óvíst er um áhrif þess að WOW Air hættir starfsemi á ferðaþjónustu og íslenska hagkerfið í heild. Fjárhagsleg markmið bankans til næstu ára, t.a.m. varðandi þróun eiginfjár, eru óbreytt.“
Á meðal annarra félaga sem hafa lækkað eru Festi, sem áður hét N1, en það félag seldi WOW air eldsneyti. Þá hafa bréf í fasteignafélögunum Eik (3,20 prósent lækkun), Reitum (3,01 prósent lækkun) og Reginn (2,69 prósent lækkun) öll lækkað í fyrstu viðskiptum.
Hlutabréf í Eimskip hafa líka tekið skarpa dýfu, eða um 3,10 prósent.
Bréf hófust í dag með viðskipti Kviku banka á aðalmarkaði Kauphallar Íslands, en hann er annar bankinn sem skráður er á markað á eftir Arion banka, sem var skráður í fyrra. Þegar þetta er skrifað hafa ekki átt sér stað nein viðskipti með bréf í Kviku það sem af er degi.