Flugfélagið Wow air hefur hætt starfsemi. Tilkynning þessa efnis birtist á vef félagsins upp úr klukkan átta í morgun. Öll flug félagsins falla niður. Farþegum er bent á að kanna möguleika á flugi hjá öðrum flugfélögum og að hafa samband við Samgöngustofu.
Greint var frá því í nótt að öllu flugi hjá WOW air hefði verið aflýst. Í tilkynningu frá flugfélaginu í nótt sagði að félagið væri á „lokametrunum“ með að klára fjárfestingu og fá nýjan eigendahóp að félaginu. Nú er hins vegar ljóst að það tókst ekki.
Leiðbeiningar til farþega
Samgöngustofa hefur birt tilkynningu á vef sínum um upplýsingar til farþega WOW air. Farþegum er bent á að kanna möguleika á flugi hjá öðrum flugfélögum. Farþegum sem keyptu flugmiða með kreditkorti er bent á að hafa samband við útgefanda kortsins til að kanna möguleika á að fá flugmiðann endurgreiddan.
Jafnframt er farþegum sem keyptu ferðina af evrópskum ferðaskipuleggjanda sem seldi flugmiðann sem hluta af svokallaðri alferð bent á að þeir eigi rétt á heimflutningi á grundvelli samevrópskra reglna um alferðir. Farþegum er bent á að hafa samband við þann ferðaskipuleggjanda sem þeir keyptu ferð sína af.
Í tilkynningunni segir að farþegar kunni jafnframt að eiga kröfu á hendur WOW air , meðal annars á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega. „Þegar um gjaldþrot er að ræða þarf að lýsa slíkum kröfum í þrotabú flugrekandans.“