Mörg lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki hafa fundið verulega fyrir falli WOW air og hafa afpantanir verið tíðar, ekki síst hjá fyrirtækjum í gisti- og veitingaþjónustu.
Á undanförnum tveimur dögum hafa yfir 1.500 manns misst vinnuna í uppsögnum, en um 1.100 manns unnu hjá WOW air, og hafa stéttarfélög brugðust skjótt við áfallinu. VR bauðst til að lána félagsmönnum fyrir komandi mánaðarmótum, og ætlar félagið að lýsa kröfu í bú WOW air og síðan verða kostnaður gerður upp þegar Ábyrgðarsjóður launa greiðir út.
Á meðal stórra uppsagna undanfarna daga er uppsögn á 315 starfsmönnum hjá fyrirtækinu Airport Associates en WOW air var þeirra stærsti viðskiptavinur. Vonir standa til þess að hægt verði að endurráða hluta af starfsmönnunum aftur, en umfangsmikil endurskipulagning á starfseminni fer nú fram til að laga hana að breyttum veruleika.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur Icelandair uppi áform um að auka enn frekar við starfsemi sína til að mæta brottfalli WOW air af markaðnum, og verða þau áform kynnt á næstu dögum eða vikum.
Rekstrarumhverfið í flugheiminum hefur verið krefjandi að undanförnu, ekki aðeins fyrir WOW air - sem endaði með gjaldþroti - heldur flest flugfélög. Icelandair tapaði 6,8 milljörðum á síðustu þremur mánuðum síðasta árs, og fyrstu mánuðir þessa árs hafa líka verið erfiðir. Eiginfjárstaða félagsins er hins vegar traust, en eigið fé félagsins var 55 milljarðar króna í lok árs í fyrra.
Að mati Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á höggið af falli WOW air ekki að þurfa að valda miklum skaða fyrir hagkerfið, að því er fram kom í ræðu hans á aðalfundi Seðlabanka Íslands, fyrr í vikunni. Nefndi hann að undirstöðurnar í hagkerfinu væru sterkar, og nægt svigrúm væri til að bregðast við hjá hinu opinbera, t.d. með auknum fjárfestingum eða öðrum mótvægisaðgerðum, ef þess væri talin þörf.