Samningafundi verkalýðsfélaganna Eflingar, VR, VLFA, VLFG, Framsýnar og LÍV við Samtök atvinnulífsins lauk á ellefta tímanum í gærkvöld í húsnæði Ríkissáttasemjara. Deiluaðilar hafa fundið stíft alla helgina en nýr fundur er boðaður í dag klukkan hálftíu. Vinnustöðvanir strætóbílstjóra í Eflingu sem vinna fyrir Kynnisferða hófust því í morgun. Akstur á tíu leiðum fellur niður milli klukkan 7 og 9 á morgnana og milli 16 og 18 síðdegis.
Aðgerðirnar eiga standa út aprílmánuðinn
Verkfall hjá bílstjórum Almenningsvagna Kynnisferða, sem eru félagsmenn í Eflingu, hófst klukkan sjö í morgun. Verkfallið raskar ferðum á tíu strætóleiðum, 12, 14, 15, 16, 17, 21, 24, 28, 35 og 36. Bílstjórar viðkomandi leiða leggja niður störf á milli sjö og níu á morgnana og svo aftur á milli fjögur og sex síðdegis. Aðgerðirnar standa út mánuðinn ef ekki nást samningar. Talið er aðgerðirnar muni hafa áhrif á um 15 þúsund farþega Strætó.
Þriggja daga verkfall á miðvikudag
Næstu fyrirhuguðu verkföll eru hjá hótelstarfsfólki og hópbifreiðastjórum hjá VR og Eflingu sem leggja niður störf í þrjá daga frá miðvikudegi ef ekki tekst að semja. Fyrsta þriggja daga verkfall á hótelum og hjá rútufyrirtækjum í apríl er því boðað dagana 3. til 5. apríl. Þriggja daga verkföll hafa einnig verið boðuð dagana 9. til 11. apríl, 15. til 17. apríl og 23. til 25. apríl. Ef ekki næst að semja er svo ótímabundið verkfall boðað frá og með 1. maí og stendur það ótímabundið þar til samningar nást.
Kjarasamningar á opinberum markaði runnu út í nótt
Kjarasamningar flestra stéttarfélaga á opinberum markaði runnu út á miðnætti. Drífa Snædal, formaður ASÍ, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hún búist ekki við því að það setji aukna pressu á viðsemjendur á almenna markaðnum í sínum viðræðum. „Nei, ég sé það ekki endilega. Þetta eru sjálfstæðir samningar og kjarasamningagerðin hefur ekki verið að blandast saman. Það hefur verið samstarf varðandi viðræður við stjórnvöld varðandi upplýsingamiðlun, en ekki í kjarasamningum,“ sagði Drífa.