Blaðamannafundi, þar sem kynna átti lífskjarasamning stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, var frestað á síðustu stundu í dag, en hann hafði verið boðaður 18:30 í Ráðherrabústaðnum við Tjörnina.
Ástæðan var sú að aðilar vinnumarkaðarins, það er stéttarfélög og Samtök atvinnulífsins, reyna nú til þrautar að klára samninga.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtölum við Stöð 2 og RÚV, að vinnan við að klára þessi mál, væri nú í gangi og nú sé verið að reyna að ná saman um þau atriði sem útaf standa, en hún sagðist hafa miklar væntingar um að það næðist að klára samninga þar sem mið væri tekið af því að samningar væru í gildi til 1. nóvember 2022, líkt og kom fram í tilkynningu frá Ríkissáttasemjara, Bryndísi Hlöðversdóttur, á öðrum tímanum í nótt.
Ekki hefur komið fram í nákvæmisatriðum hver eru helstu atriðin í samningunum, enda mun lokaniðurstaðan í viðræðunum leiða það í ljós.
Katrín sagði í viðtali við Stöð 2 og RÚV að aðkoma stjórnvalda tæki mið af þeim tillögum sem komið hafa fram, þar á meðal um að lækka skatta fyrir þá lægst launuðu, tryggja meira framboð af húsnæði og bjóða upp á betri lausnir fyrir fyrstu íbúðarkaupendur, hækka barnabætur og auka við fæðingarorlof, svo eitthvað sé nefnt af því sem Katrín nefndi í viðtölum við Stöð 2 og RÚV í kvöld.
Kjarninn hefur verið í sambandi við fólk úr röðum félaga sem nú sitja við samningaborðið í dag, og er mikil hreyfing á málum í átt til lausnar, samkvæmt heimildum Kjarnans. Búast má við því að það dragi til tíðinda, með samningum, á næsta sólarhring.