Gengið var frá yfirlýsingu um meginlínur kjarasamninga á milli Samtaka atvinnulífsins og VR og félaga Starfsgreinasambandsins, skömmu eftir miðnætti. Samningunum er ætlað að standa til 1. nóvember 2022. Samkomulagið er þó með fyrirvara um aðkomu stjórnvalda að samningum, og samþykki samninganefnda þeirra félaga um eiga aðild að samkomulaginu. Deiluaðilar munu funda með stjórnvöldum í húsakynnum Ríkissáttasemjara klukkan 9.
Ómögulegt að vita hvers sé að vænta frá stjórnvöldum
Í tilkynningu frá Eflingu segir að á fundinum hafi fengist fram grundvöllur til þess að loka samningum. Í höfðu samráði við félagsmenn ákvað formaður Eflingar að aflýsa verkfallsaðgerðum og vinna að lokagerð samnings. Sú vinna hefst strax í dag, en leitað verður eftir viðbrögðum stjórnvalda en samkvæmt tilkynningunni er aðkoma þeirra mikilvægur fyrirvari um undirritun samnings þegar þar að kemur.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við Kjarnann að hann eigi von á því að fundurinn með stjórnvöldum verði klukkan 9 í dag. Á þeim fundi má vænta þess að pakki stjórnvalda verði kynntur deiluaðilum en Ragnar segir að forsenda þess að þær meginlínur kjarasamninga sem samþykktar voru í gær verði að veruleika sé aðkoma stjórnvalda. Hann segir ómögulegt að vita hvers sé að vænta frá stjórnvöldum.
Ekki fullnaðarsigur heldur vopnahlé
„Niðurstaðan í þessum viðræðum er ekki fullnaðarsigur heldur vopnahléslína milli stéttar verkafólks og stéttar auðmagnseigenda. Baráttan milli þeirra heldur áfram. Ég er sátt við að við höfum fengið fram grundvöll til þess að loka samningi eftir langar og strangar kjaraviðræður,“ er haft eftir Sólveig Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningunni. Hún segir jafnframt að félagsmenn Eflingar hafi auðvitað síðasta orðið um hvort þeir samþykki samning í atkvæðagreiðslu en hún heldur að með þessum samningsgrundvelli hafi náðst að koma til móts við kröfur okkar félagsmanna um lífskjarabót.
Efling undirbýr nú áætlun um kynningu komandi samnings meðal félagsmanna, á félagsfundum og með kynningarefni. Trúnaður hvílir enn sem komið er um inntak viðræðna.