Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management, sem er með heimilisfesti í Boston, hefur keypt 625 milljónir nýrra hluta í Icelandair Group á 5,6 milljarða króna.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands.
Samþykkt var á hluthafafundi Icelandair 30. nóvember síðastliðins, daginn eftir að félagið ákvað að hætta við að kaupa WOW air í fyrra skiptið, að auka hlutafé um 11,5 prósent. Nú hefur PAR Capital Management ákveðið að kaupa það allt.
Kaupverðið er 9,03 kr. á hlut og heildarkaupverð því 5.643.750.000 krónur. Í tilkynningunni segir að kaupverðið samsvari meðaldagslokagengi síðustu þriggja mánaða. „Samkomulagið er bundið fyrirvara um samþykki hluthafafundar og því að hluthafar afsali sér forgangsrétti að hinum nýju hlutum. Icelandair Group mun boða til hluthafafundar sem haldinn verður 24. apríl nk.“
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að PAR Capital Management sé góð viðbót við sterkan hluthafahóp. Það sé mat félagsins að aðkoma PAR Capital Management verði verðmæt. „Það er ennfremur ánægjulegt að svo stór og öflugur fjárfestir deili trú okkar á framtíðarhorfur félagsins.”
PAR Capital Management er fjárfestingarsjóður staðsettur í Boston sem hefur 4 milljarða bandaríkjadala í stýringu. Sjóðurinn var stofnaður árið 1990 og leggur áherslu á langtímafjárfestingar í ferðaþjónustu og stafrænum miðlum.
Verður næst stærsti eigandi Icelandair
Túristi.is greinir frá því í morgun að PAR Capital Management eigi í mun fleiri flugfélögum en bara Icelandair. Á meðal þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn hefur fjárfest í eru United Airlines, Delta, Alaska Air, Southwest Airlines, Allegiant og JetBlue.
PAR Capital Management verður næst stærsti eigandi Icelandair Group á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna, sem mun eiga um 13,3 prósent í Icelandair að teknu tilliti til hins nýja hlutafjár sem gefið verður út vegna kaupa PAR Capital Management. Lífeyrissjóðir landsins eru samanlagt áfram sem áður langstærsti eigandi Icelandair Group. Saman eiga þeir um helming í félaginu.
Markaðsvirði Icelandair Group var 44,3 milljarðar króna við lok viðskipta í gær. Verðmiðinn á Icelandair Group fór yfir 180 milljarða króna þegar best lét í apríl 2016, en virði félagsins hefur dregist verulega saman á síðustu þremur árum samhliða versnandi rekstraraðstæðum í flugheiminum.
Þungur rekstur
Rekstur Icelandair Group gekk nokkuð erfiðlega á síðasta ári og nam tap félagsins 55,6 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 6,7 milljarða króna. Þá dróst EBITDA félagsins verulega saman á milli ára og var 76,5 milljónir dala borið saman við 170 milljónir dala árið 2017.
Á þessu ári hefur félagið staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum. Í síðasta mánuði ákvað það að taka Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðinn tíma. Félagið er með þrjár slíkar vélar í rekstri eftir að tvær slíkar vélar höfðu hrapað með skömmu millibili.
Í byrjun viku var greint frá því að Icelandair hefði gengið frá leigu á tveimur Boeing 767 breiðþotum út september til að tryggja að fluáætlun félagsins raskist sem minnst á meðan að MAX vélarar eru kyrrsettar. Þá vinnur Icelandair að því að fá þriðju vélina leigða, meðal annars til að bregðast við gjaldþroti WOW air í síðustu viku.