Íslenska hagkerfið mun tímabundið fá á sig högg vegna falls WOW air, og það verður erfitt að fylla skarðið sem WOW air skilur eftir sig, en til lengri tíma horft hefur mun staðan jafna sig.
Þetta kemur fram í greiningu lánshæfismatsfyrirtækisins Moody's.
Þar segir að fall WOW air get sett þrýsting á gengi krónunnar, vegna fækkunar ferðamanna og neikvæðra áhrifa á útflutning. Með tímanum mun skarð WOW air hins vegar fyllast með aukinni starfsemi flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi, en þau eru 27 þessi misserin.
Vöxturinn í ferðaþjónustu hefur verið gríðarlega hraður og mikill, undanfarin ár. Í greiningu Moody's segir að framlag ferðaþjónustu til hagvaxtar hafi verið um 33 prósent, vegna ársins 2017, en það er tvöföldun frá því árið 2009.
Fjöldi ferðamanna á ári fór úr 450 þúsund árið 2010 í 2,3 milljónir í fyrra.
Í greiningu Moody's segir enn fremur að sterk staða ríkissjóðs gefi færi á því að bregðast við niðursveiflu, ef þess þarf, og að langtímahorfur í hagkerfinu séu góðar.