Skúli Mogensen stofnandi og fyrrverandi forstjóri flugfélagsins WOW air, sem tekið var til gjaldþrotaskipta í síðustu viku, reynir nú að afla fjármagns til að endurvekja flugfélagið. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu en Skúli hefur einnig staðfest tíðindin í samtali við Fréttastofu RÚV.
Í umfjöllun Fréttablaðsins er vísað til fjárfestakynningar, sem dagsett er í gær og blaðið hefur undir höndunum, fyrir nýja flugfélagið. Þar kemur fram að Skúli og aðrir lykilstjórnendur WOW air leiti nú að fjármögnun upp á 40 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 4,8 milljörðum króna, til að standa straum af kostnaði við upphaf rekstursins. Flugfélagið muni hafa lággjaldastefnu í hávegum líkt og á fyrstu árum Wow air. Þá segir að Skúli og aðrir sem munu koma að stofnun félagsins muni eiga 51 prósent hlut í flugfélaginu en fjárfestar sem leggi því til 40 milljónir Bandaríkjadala 49 prósent.
Jafnframt kemur fram í kynningunni að stefnt sé að því að nýja flugfélagið reki til að byrja með fimm Airbus- farþegaþotar, fjórar af gerðinni A321neo og eina af gerðinni A320neo. Þá segir að nýja flugfélagið stefni að því að öðlast flugrekstrarleyfi á þeim forsendum að það sinni fyrstu vikurnar leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag. Auk þess sé markmiðið að kaupa helstu eignir þrotabús WOW air, þar á meðal WOW-vörumerkið.