Íslandsbanki, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, er orðinn níundi stærsti eigandi Arion banka með 2,84 prósent hlut. Miðað við það verð sem var á hlutum í Arion banka á markaði í byrjun síðustu viku hefur kaupverðið verið um 4,3 milljarðar króna. Ekki fékkst upplýst um það hjá bankanum hvort hann sé að kaupa á eigin bók eða fyrir hönd einhverra viðskiptavina sinna þegar Kjarninn spurðist fyrir um það.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefur einnig bæst í hóp stærstu eigenda Arion banka með 1,1 prósent hlut. Það gerir sjóðinn, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins, að þrettánda stærsta eiganda Arion banka. Miðað við gengi bréfa í Arion banka í byrjun síðustu viku hefur kaupverðið verið rúmlega 1,6 milljarðar króna.
Hvorki Íslandsbanki né LSR áttu hluti í Arion banka þangað til nýlega.
Stærsti eigandi bankans, Kaupþing ehf., seldi tíu prósent hlut í honum í síðustu viku. Virði hlutarins miðað við skráð gengi Arion banka þegar hann var seldur var um 15 milljarðar króna. Ekki var tilgreint hver kaupandinn er en samkvæmt nýjum hluthafalista sem birtur var í dag er ljóst að bæði Íslandsbanki og LSR eru á meðal þeirra sem keyptu.
Þá hefur breska sjóðstýringarfyrirtækið Artemis Investment Management, sem keypti 1,2 prósent hlut í Arion banka í byrjun árs, bætt við sinn hlut en það á nú 1,68 prósent í bankanum.
Arion banki var skráður á markað í fyrra. Hann varð þá fyrsti íslenski bankinn sem skráður var á hlutabréfamarkað eftir bankahrunið. Áður en að af skráningunni varð nýttu þeir erlendu sjóðir sem eru stærstu eigendur Kaupþings sér forkaupsrétt á 13 prósent hlut íslenska ríkisins í bankanum og greiddu fyrir 23 milljarða króna.
Tilkynnt var um hlutafjárútboð vegna tvískráningar Arion banka á Íslandi og í Svíþjóð um miðjan maí 2018. Í því var um 29 prósent hlutur í Arion banka seldur til nýrra fjárfesta. Bankinn var svo skráður á markaði í júní.
Í dag er eignarhald Arion banka með þeim hætti að Kaupþing ehf. er enn stærsti eigandinn með 22,67 prósent þrátt fyrir að hafa selt tíu prósent hlut í síðustu viku. Þá á Arion banki 9,31 prósent hlut í sjálfum sér. Vogunarsjóðirnir Taconic Capital (tíu prósent), Attestor Capital (7,15 prósent) og Och-Ziff Capital (6,58 prósent) koma þar næst. Stærsti innlendi fjárfestirinn í bankanum var Gildi lífeyrissjóður með 2,52 prósent hlut en er nú Íslandsbanki, eða viðskiptavinir hans, með 2,84 prósent hlut.
Arion banki hefur hækkað um 3,66 prósent það sem af er degi í 622 milljóna króna viðskiptum.