Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmannafélaganna, segir að það styttist í kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins en fundað var í kjaradeilunni í morgun. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Kristján Þórður segir að þau vilji auka kaupmátt iðnaðarmanna og stytta vinnutíma svo fátt eitt sé nefnt. „Svo eru fullt af kröfum undir sem eru breytingar á textum ákvæða kjarasamninga,“ segir hann í samtali við RÚV.
Hann segir jafnframt að ekki sé langt í land varðandi samningana. Fólk sé að tala saman og að viðræðurnar gangi ágætlega. Það skipti mestu máli.
Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við RÚV að fast verði setið næstu daga og inn í dymbilvikuna „og lengur ef þörf krefur“.
„Sátt er margslungið fyrirbæri. Við erum áfram að byggja brýr til ýmissa félaga. Við hjá Samtökum atvinnulífsins munum hitta opinberu félögin og fara yfir lífskjarasamningana með þeim og fylla inn í þær eyður sem mögulega hafa myndast í frásögn af samningnum,“ segir hann.
Samtök atvinnulífsins munu funda á morgun í máli Mjólkurfræðinga og Flugfreyjufélags Íslands vegna Icelandair fyrir atbeina ríkissáttasemjara.