Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað um tæp tvö prósentustig frá síðustu fylgismælingu MMR og mælist nú 21,7 prósent, en á sama tíma hefur fylgi við Miðflokkinn aukist um tvö prósentustig og mælist nú 10,2 prósent.
Þetta sýnir ný könnun frá MMR.
Könnunin var framkvæmd 4.-9. apríl 2019 og var heildarfjöldi svarenda 926 einstaklingar, 18 ára og eldri.
Píratar mældust með 15,0 prósent fylgi, sem er tæplega einu og hálfu prósentustigi meira en flokkurinn mældist með í síðustu könnun.
Þá minnkaði fylgi Framsóknarflokksins um tæplega tvö og hálft prósentustig og er það nú 8,7 prósent.
Stuðningur við ríkisstjórnina jókst hins vegar um um tæp fimm prósentustig og mældist nú 46,5 prósent en var 41,8 prósent í síðustu mælingu. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er nú 40,8 prósent.
Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 13,9 prósent og mældist 13,8 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Vinstri grænna mælist nú 10,4 prósent og mældist 11,4 prósent í síðustu könnun. Fylgi Viðreisnar mælist nú 9 prósent og mældist 9,4 prósent í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 8,7 prósent og mældist 11,1 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Flokks fólksins mældist nú 5,4 prósent og mældist 4,7 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mælist nú 4,5 prósent og mældist 2,5 prósent í síðustu könnun.