Greiningardeild Arion banka spáir því að verðbólga muni fara úr 2,9 prósent í 3,3 prósent í apríl. Ástæðan er meðal annars hækkun á flugfargjöldum, segir í greiningunni.
„Hækkun á verði flugfargjalda hefur mest áhrif á vísitölu neysluverðs í apríl, en gert er ráð fyrir 12% hækkun (0,17% áhrif á VNV). Hækkunina má fyrst og fremst rekja til yfirvofandi páskafrís, ekki gjaldþrots WOW air, en við teljum að áhrifin af minni samkeppni á flugmarkaði séu ekki komin fram. Af öðrum undirliðum sem hækka má nefna að eldsneyti hækkar um 2% (0,07% áhrif á VNV), reiknuð húsaleiga hækkar um 0,25% (0,06% áhrif á VNV), húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 0,4% (0,05% áhrif á VNV) og tómstundir 0,3% (0,02% áhrif á VNV),“ segir í greiningunni.
Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 4,5 prósent, og verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.
Í greiningunni segir að útsöluáhrif á verðbólguna séu nú gengin til baka. „Okkur sýnist að eftir töf í febrúar hafi áhrifin gengið að fullu til baka í mars. Það vekur athygli að undirvísitalan tómstundir hefur látið lítið fyrir sér fara að undanförnu þrátt fyrir að vera að miklu leyti háð gengi krónunnar. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá breytingu á undirvísitölum fatnaðar og tómstunda. Þar sést að breytingin fyrstu þrjá mánuði ársins er oftast mjög nálægt breytingunni á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Áhugavert er að sjá hvað verð tómstunda (sjónvörp, DVD diskar og spilarar og annað slíkt) hefur breyst lítið á fyrstu mánuðum ársins, sérstaklega í ljósi þess að fyrir nokkrum árum hækkuðu verð á þessum lið nokkuð reglulega á fyrsta fjórðungi,“ segir í greiningunni.