Fjármálaeftirlitið taldi að áskriftarsöfnun fyrir hlutafé í WOW air, sem auglýst var á vefsíðunni hluthafi.com, félli undir hugtakið almennt útboð verðbréfa, sbr. 43. grein laga um verðbréfaviðskipti n. 108/2007.
Með því er átt við að hvers konar boð til almennings um kaup á verðbréfum, en áður en farið er í almennt útboð verðbréfa þarf að gefa út lýsingu í samræmi við 1. mgr. 44. grein laga um verðbréfaviðskipti.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu.
„Fyrr í dag sendi Fjármálaeftirlitið erindi til forsvarsmanna hluthafi.com þar sem gerð var krafa um að heimasíðunni yrði lokað þar sem ekki virtust uppfyllt skilyrði laga um verðbréfaviðskipti, m.a. varðandi útgáfu lýsingar. Í kjölfar þessa hafa forsvarsmenn hluthafi.com breytt fyrirkomulagi áskriftarsöfnunarinnar á þann hátt að nú er miðað við skráningu fyrir hlutaskírteini í einkahlutafélagi sem fellur ekki undir lög um verðbréfaviðskipti.
Fjármálaeftirlitið vekur athygli á að almennir fjárfestar njóta ekki sömu verndar vegna kaupa í einkahlutafélagi og þegar þeir taka þátt í almennu hlutafjárútboði,“ segir í tilkynningu FME.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, hefur verið fundað með mörgum fjárfestum, vegna mögulegrar endurreisnar WOW air, undanfarna daga.
Á vefnum hluthafi.com, segir að það sé markmiðið að tryggja meiri samkeppni í flugi, með stofnun eða endurreisnar lággjaldaflugfélagsins. Horft er til þess að fjárfesta í vörumerkjum og bókunarkerfi, ásamt fleiri þáttum sem þarf til að tryggja samkeppni í fluginu til Íslands, og styrkja með því ferðaþjónustuna.