Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, hefur sagt starfi sínu lausu. Hann lætur nú þegar af störfum samkvæmt tilkynningu. Isavia á og rekur flugvellina í landinu og er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.
Skipt var um stjórnarformann í fyrirtækinu í síðasta mánuði þegar Orri Hauksson, forstjóri Símans, tók við af Ingimundi Sigurpálssyni.
Í tilkynningunni segir Björn Óli að hann hafi nú starfað hjá Isavia í áratug og að sá tími hafi verið viðburðaríkur og skemmtilegur. „Ég hef fengið að taka þátt í uppbyggingu á Isavia sem hefur verið einstakt. Einnig hef ég fengið tækifæri til að vinna með frábæru starfsfólki í umhverfi þar sem áskoranir eru og hafa verið miklar. Ég er þakklátur fyrir það hversu vel hefur tekist til og nú er að hefjast enn einn kaflinn í sögu Isavia. Í því ljósi tel ég að nú sé góður tími fyrir nýtt fólk til að taka við keflinu.”
Orri Hauksson segir á sama stað að stjórnin virði ákvörðun Björns Óla um að nú sé góður tímapunktur til að láta af störfum. Hafist verði handa við að ráða nýjan forstjóra. Fram að því munu Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri, og Sveinbjörn Indriðason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, annast daglegan rekstur félagsins.
Skuld WOW air og launamál
Isavia hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarið, meðal annars vegna vandræða WOW air sem enduðu með gjaldþroti í síðasta mánuði. Isavia hafði veitt WOW air umtalsvert svigrúm vegna greiðslu á lendingargjöldum og voru þær skuldir vel á annan milljarð króna hið minnsta. Vegna þeirra gerði Isavia kröfu um að ein þeirra véla sem WOW air var með á leigu væri alltaf staðsett á Keflavíkurflugvelli. Sú vél hefur síðan verið notuð til að reyna að innheimta skuld WOW air við Isavia. Umburðarlyndi Isavia gagnvart WOW air var harðlega gagnrýnt af ýmsum fyrir að vera andstætt eðlilegum samkeppnissjónarmiðum.
Launamál Björns Óla hafa líka verið umtalsvert til umfjöllunar siðustu misseri. Kjarninn greindi frá því fyrr á þessu ári að heildarlaun Björns Óla hefðu hækkað um 43,3 prósent frá því að ákvörðun launa var færð frá kjararáði árið 2017 til stjórnar fyrirtækisins á ný. Launin hækkuðu úr 1.748.000 krónum á mánuði í nóvember 2017 í 2.504.884 í maí 2018.
Þetta kom fram í svari Isavia við fyrirspurn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvernig fyrirtækið hefði brugðist við tilmælum sem beint var til fyrirtækja í ríkiseigu í janúar 2017 er varðar launaákvarðanir og starfskjör framkvæmdastjóra.