Reporters without boarders, eða Blaðamenn án landamæra, hafa birt lista sinn um vísitölu fjölmiðlafrelsis fyrir árið 2019.
Ísland er í 14. sæti, neðst Norðurlandanna. Noregur skipar efsta sætið, Finnland er í öðru sæti og Svíþjóð í því þriðja. Danmörk er í fimmta sæti.
Ísland hefur færst niður um fjögur sæti á listanum á tveimur árum, en landið sat í 10. sæti árið 2017.
Ekki er að finna ítarlega greiningu um forsendur sem liggja að baki matinu en í stuttri samantekt er talsvert gert úr metnaðarfullri þingsályktunartillögu sem samþykkt var 2010 um að gera Ísland að forysturíki í vernd uppljóstrara, gagnsæis, tjáningarfrelsis og fjölmiðlafrelsis.
Í úttektinni er 180 löndum og svæðum raðað upp í röð eftir fjölmiðlafrelsi. Hún byggir á því að sérfræðingar svara spurningalistanum sem gerður er af samtökunum. Þau svör eru síðan greind og löndunum gefin einkunn. Því lægri sem hún er, því meira er fjölmiðlafrelsið. Noregur fær til að mynda einkunnina 7,82 og Finnland, Svíþjóð og Danmörk fá öllu einkunn sem er lægri en 10,0.
Ísland fær hins vegar 14,71 og stigafjöldi landsins eykst um 0,61 á milli ára. Það þýðir að einkunn Noregs er helmingur af einkunn Íslands.
Norður-Kórea, sem vermt hefur neðsta sæti listans undanfarin ár, er þar ekki lengur. Í staðinn hefur Túrkmenistan sest í botnsætið. Norður-Kórea er þó ekki langt undan, eða í sæti 179. Þar fyrir ofan eru Eritrea, Kína, Víetnam og Súdan.