Heildareignir lífeyrissjóðanna námu einni og hálfri landsframleiðslu í desember 2018 og heldur hlutfallið áfram að hækka en eignir sjóðanna jukust um 294 milljarða króna í fyrra.
Heildareignir lífeyrissjóða nema nú um 4.400 milljörðum króna, en til samanburðar þá er virði allra skráðra félaga á aðalmarkaði kauphallar Íslands um 1.200 milljarðar.
Áfram má búast við því að lífeyrissjóðirnir horfi meira á alþjóðlega markaði til að fjárfesta, segir í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands.
Lán til sjóðfélaga jukust um 25 prósent að raunvirði í fyrra miðað við árið áundan, og námu þau um 424 milljörðum króna í lok árs í fyrra.
Á síðustu árum hafa lífeyrissjóðirnir boðið hagstæðustu kjörin á íbúðalánum og þannig aukið samkeppni á íbúðalánamarkaði en sjóðfélagalánin hafa samtals aukist um 70 prósent að raunvirði síðastliðin tvö ár, að því er fram kemur í Fjármálastöðugleika.
„Nýlega lækkuðu hins vegar nokkrir af stærstu lífeyrissjóðunum hámarksveðhlutföll útlána úr 75% í 70% ásamt því að setja strangari kröfur um viðbótarlán. Útlit er því fyrir að hægja muni á aukningu sjóðfélagalána en gæði útlánasafns þeirra gætu aftur á móti aukist. Lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklir á innlendum verðbréfamarkaði en þeir eiga 51 prósent allra verðbréfa. Hlutfall verðtryggðra markaðsskuldabréfa af heildareignum sjóðanna var tæplega 37 prósent um sl. áramót,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Lífeyrissjóðirnir eiga nú um 38 prósent af skráðum hlutabréfum á markaði en hlutfall innlendra hlutabréfa af heildareignum lífeyrissjóðanna dróst lítillega saman í fyrra.
Sjóðirnir fjárfesta í erlendum eignum til áhættudreifingar en þær voru um 26 prósent eigna lífeyrissjóða í lok árs í fyrra og stærstur hluti þeirra voru hlutdeildarskírteini. Hreint útstreymi fjármagns lífeyrissjóðanna frá Íslandi vegna verðbréfa nam 117 milljörðum í fyrra miðað við 79 milljarða á árinu þar á undan.