Færsluhirðinum Valitor, sem er dótturfélag Arion banka, hefur verið gert að greiða Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) 1,2 milljarða króna í skaðabætur fyrir að slíta samningi um greiðslugátt fyrirvaralaust.
Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, en Fréttablaðið greinir frá málinu á vef sínum.
Fjölmiðillinn Wikileaks tók við styrkjum fyrir starfsemi sína í gegnum greiðslugátt sem Datacell og Sunshine Press Production (SPP) ráku. Greiðslugáttin var opnuð 7. júlí 2011 en degi síðar sleit Valitor samningnum fyrirvaralaust.
Með dómi árið 2013 komst Hæstiréttur að því að riftunin hafi veri ólögmæt, og hefur síðan verið deilt um skaðann og skaðabætur vegna fyrrnefndrar aðgerðar.
Sveinn Andri Sveinsson hrl. hefur rekið málið fyrir hönd Datacel og Sunshine Press Productions, og hefur það meðal annars leitt til mikilla deilna milli Sveins Andra og Arion banka, eiganda Valitor. Fór Arion banki meðal annars fram á það að Sveinn Andri myndi víkja sem skiptastjóri þrotabús WOW air, þar sem Arion banki átti kröfu, og mátti rekja þá kröfu til máls Valitor og Datacel og SPP.
Sveinn Andri er enn skiptastjóri WOW air ásamt Þorsteini Einarssyni hrl.
Arion banki er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð. Eigið fé bankans nam 200,9 milljörðum í lok árs í fyrra.