Rekstrarafgangur Reykjavíkurborgar árið 2018 var um 650 milljónum króna betri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, eða 4,7 milljarðar króna. Helsta ástæðan var sú að skatttekjur voru 299 milljónum krónum meiri en gert hafði verið ráð fyrir og gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga var 297 milljónum krónum lægri en áætlað var.
Þetta kemur fram í ársreikningi Reykjavíkurborgar sem lagður var fram í borgarráði í dag. Þar segir enn fremur að afgangur af rekstri samstæðu borgarinnar, sem samanstendur annars vegar af þeim rekstri sem fjármagnaður er með skatttekjum (A-hluta) og hins vegar af afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða hluta (B-hluta), hafi verið 12,3 milljarðar króna í fyrra. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf.
Eigið fé Reykjavíkurborgar var 317 milljarðar króna um síðustu áramót og eiginfjárhlutfall 49,4 prósent. Eignir voru tæplega 642 milljarðar króna en skuldir rúmlega 324 milljarðar króna.
Í fréttatilkynningu vegna þessa er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að frá árinu 2010 hafi þurft að taka mikið til í rekstri borgarinnar. Því sé niðurstaðan ánægjuleg þar sem þetta sé þriðja árið í röð sem Reykjavíkurborg skili umtalsverðum afgangi. „Um leið og svigrúm myndaðist lögðum við aðaláherslu á að bæta fjármagni inn í velferðar- og skólamál. Á undanförnum árum höfum við einnig lagt mikla áherslu á framkvæmdir og fjárfestingar á vegum borgarinnar þar sem við höfum forgangsraðað í þágu barna. Við höfum byggt skóla, leikskóla og íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal sem brátt sér fyrir endann á. Þá hófum við uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í Suður-Mjódd og endurnýjuðum leikskóla- og skólalóðir um alla borg. Við lækkuðum álagningarhlutfall fasteignagjalda um 10% auk þess að gefa eldri borgurum og öryrkjum sérafslátt. Við höfum einnig verið með stórátak í malbikun gatna og lagningu nýrra hjólastíga í borginni. Í ljósi alls þessa fögnum við niðurstöðunni sérstaklega – því uppgjörið sýnir borg sem hefur metnað fyrir framúrskarandi þjónustu, leggur áherslu á góða innviði og forgangsraðar í þágu velferðarmála og skólamála.“